Vaxandi líkur á útgöngu án samnings

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ræðir við breska þingmenn í dag.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ræðir við breska þingmenn í dag. AFP

Höfnun mikils meirihluta þingmanna í neðri deild breska þingsins á samningi Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, við Evrópusambandið um útgöngu landsins úr því hefur aukið enn á líkurnar á því að Bretar segi skilið við sambandið án sérstaks samnings.

Þetta sagði Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, þegar ljóst var að 432 þingmenn höfðu hafnað útgöngusamningi May, þar af um þriðjungur þingmanna Íhaldsflokks forsætisráðherrans, og einungis 202 stutt hann.

Hvatti Juncker Breta til þess að skýra betur hvað þeir ætluðu að gera, tíminn væri næstum á þrotum til þess en Bretland mun að óbreyttu yfirgefa Evrópusambandið formlega 29. mars hvort sem sérstakur útgöngusamningur hefur þá verið samþykktur eða ekki.

Forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, Donald Tusk, hvatti hins vegar Breta til þess að endurskoða stöðu sína og vísaði þar til þess að þeir ættu að íhuga að hætta við að yfirgefa sambandið. Ef samningar næðust ekki væri mögulega það eitt í stöðunni.

Jean Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Jean Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

Talsmaður Tusks lýsti því yfir þegar niðurstaðan í breska þinginu lá fyrir að ríki Evrópusambandsins myndu standa sameinuð gagnvart útgöngu Bretlands og leggja sig fram við að draga úr þeim skaða sem útgangan myndi valda þeim.

Viðbrögð írskra stjórnvalda voru á þá leið að lýsa því yfir að undirbúningur þeirra fyrir mögulega útgöngu Breta úr Evrópusambandinu án samnings yrði aukinn. Komi til slíkrar útgöngu þykir ljóst að það kæmi mjög illa við írska hagsmuni.

Þýsk stjórnvöld sögðust harma niðurstöðuna í breska þinginu. Voru Bretar hvattir til þess að ákveða hvað þeir vildu gera í framhaldinu en um leið tekið fram að ef þeim snerist hugur og hættu við að yfirgefa Evrópusambandið yrði því tekið fagnandi.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert