Engin ástæða til að fresta Brexit

Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands.
Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands. AFP

Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, segir frestun á Brexit vera út í hött. „Hún væri eingöngu eðlileg ef samningur er í augsýn á milli ESB og Bretlands,“ sagði Maas í viðtali við útvarpsstöðina Deutschlandfunk.

Hann bætti við að eins og staðan er núna „er það ekki skoðun meirihluta breska þingsins“.

Bretar munu að óbreyttu yf­ir­gefa Evr­ópu­sam­bandið form­lega 29. mars hvort sem sér­stak­ur út­göngu­samn­ing­ur hef­ur þá verið samþykkt­ur eða ekki.

Maas lýsti einnig yfir efasemdum um að hægt væri að gera miklar breytingar á þeim samningi sem hefur náðst á milli Breta og ESB. Unnið var að honum í tvö ár eftir að Bretar ákváðu að ganga úr sambandinu. „Við höfum náð málamiðlun. Ef það hefði verið hægt að bjóða meira hefði það verið gert fyrir mörgum vikum.“

Nathalie Loiseau.
Nathalie Loiseau. AFP

Nathalie Loiseau, Evrópumálaráðherra Frakka, segir að ESB gæti frestað útgöngu Breta sem er fyrirhuguð 29. mars ef bresk stjórnvöld óska eftir því. „Frá lagalegu og tæknilegu sjónarhorni er það mögulegt,“ sagði Loiseau við útvarpsstöðina France Inter.

„Bretar þurfa að biðja um það og það verður þarf að nást algjör samstaða á meðal hinna 27 aðilanna í Evrópusambandinu til að hægt verði að segja: „Allt í lagi, þið völduð 29. mars sem útgöngudaginn…við skulum færa hann aftar,“ sagði hún.

Fyrr í vikunni sagði Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, að ekki eigi að fresta Brexit en útilokaði það samt ekki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert