Fundu hár af drengnum í brunninum

Rúm­lega eitt hundrað slökkviliðsmenn, lög­reglu­menn og aðrir sér­fræðing­ar eru á …
Rúm­lega eitt hundrað slökkviliðsmenn, lög­reglu­menn og aðrir sér­fræðing­ar eru á staðnum. Mynd úr safni. AFP

Björg­un­ar­­menn á Spáni fundu í dag hár af tveggja ára gömlum dreng, sem á sunnudag féll niður í þrönga 100 metra djúpa borholu. DNA-prófanir hafa staðfest að hárið er af drengnum, en hjálparsveitir hafa undanfarna daga unnið hörðum höndum að því að finna drenginn.

Fjölskyldan var í skemmtiferð er atburðurinn átti sér stað í Totalán, skammt frá borg­inni Málaga í suður­hluta lands­ins, og hefur faðir hans lýst því hvernig drengurinn hvarf ofan í jörðina.

Unnið er að því að grafa tvenn göng til hliðar við núverandi göng og á að reyna að ná þannig til drengsins. BBC hefur eftir Gómez de Celis, embættismanni í héraðinu, að hárfundurinn staðfesti að drengurinn sé í brunninum.

Ekkert lífsmark hefur borist frá drengnum en for­eldrum hans, sem misstu annan son fyrir tæpum tveimur árum, hefur verið veitt áfalla­hjálp vegna máls­ins. José faðir hans segir þau engu að síður halda í vonina um að hann sé enn á lífi. Mögulega hafi drengurinn ekki fallið niður í brunninn, segir hann og kveður þau ekki hafa haft fullkomna sýn á það hvernig hann fór niður í holuna.

Hár drengsins er meðal annarra leifa sem björgunarsveitarmenn hafa fundið og bornar hafa verið saman við DNA-sýni af flösku sem drengurinn drakk úr. Þá sást sælgætispoki ofan í holunni er myndavélar voru sendar þangað niður, en aur sem lokar holunni að hluta hindraði myndavélarnar í að komast lengra niður.

Leitin gengur erfiðlega, en brunnholan er ekki nema 25 sm að þvermáli og eru björgunarmenn að reyna að tryggja að ekki falli skriður á drenginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert