Kæfði þriggja ára dreng með bílsæti

Drengurinn hafði gefið frá sér hljóð sem fóru illa í …
Drengurinn hafði gefið frá sér hljóð sem fóru illa í kærasta móður hans. Ljósmynd/Wikipedia.org

Þriggja ára gamall breskur drengur lést í febrúar eftir að kærasti móður hans hafði af ásetningi fært bílsæti sitt aftur á bak með þeim afleiðingum að drengurinn varð fyrir súrefnisskorti og heilaskaða sem leiddi hann loks til dauða.

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph að móðir drengsins, Adrian Hoare, hafi komið syni sínum, Alfie Lamb, fyrir í fótaplássi fyrir aftan farþegasætið við hlið ökumannsins í bifreiðinni sem kærasti hennar, Stephen Waterson, sat í.

Drengurinn hafði gefið frá sér hljóð sem fóru illa í Waterson. Keyrði hann sæti sitt, sem er rafdrifið, aftur á bak á drenginn tvívegis og hélt því þannig í síðara skiptið. Marcus Lamb ók bifreiðinni og kærasta hans, Emilie Williams, og Hoare sátu aftur í henni.

Fram kom fyrir dómi í málinu að þrátt fyrir að Waterson hafi verið ljóst að Alfie hafi átt erfitt með að anda hafi hann ekki fært sætið fram aftur. Móðir Alfies hafi borið ábyrgð á að vernda hann en hafi brugðist því með því að koma honum fyrir í fótaplássinu.

Ekki var kallað eftir aðstoð sjúkrabíls fyrr en fólkið kom heim til sín en fyrir dómi kom fram að þá hefði drengurinn ljóslega verið látinn í nokkurn tíma. Þá hafi Waterson og Hoare ítrekað sat lögreglunni ósatt um það hvað hefði gerst.

Þannig hafi Hoare sagt að þau hafi tekið leigubíl og sett Alfie í barnasæti. Hann hafi sofnað og þau ekki getað vakið hann. Leigubílstjórinn hefði síðan rekið þau úr bílnum og farið. Upptökur úr eftirlitsmyndavélum sýndu hins vegar fram á annað.

Enn fremur kom fram fyrir dómi að Hoare og Waterson hafi ráðist á Lamb og Williams vegna málsins og hótað þeim ef þau segðu sannleikann. Hafa þau ásamt Williams viðurkennt að hafa reynt að hindra framgang réttvísinnar í málinu.

mbl.is