Merkel segir enn tíma til að semja

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir það undir Bretum komið að …
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir það undir Bretum komið að taka næstu skref í útgönguferlinu úr Evrópusambandinu. AFP

„Það er enn tími til að semja,“ segir Angela Merkel, kanslari Þýskalands, um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Hins vegar þurfi að bíða átekta og sjá hvaða skref Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hyggst stíga, nái hún að standa af sér vantrauststillögu gegn ríkisstjórn hennar sem greidd verða atkvæði um á breska þinginu í kvöld.

Merkel er miður sín yfir niðurstöðu breska þingsins sem felldi í gær Brexit-samning stjórnarinnar og Evrópusambandsins með afgerandi hætti, en 432 þingmenn greiddu atkvæði gegn samningnum en 202 með.

Merkel segir jafnframt að það sé undir Bretum komið að taka næstu skref í ferlinu. „Skaðinn er skeður, en við viljum takmarka hann,“ sagði Merkel í samtali við NTV-fréttastöðina í morgun. Von Merkel er að útganga Breta úr ESB verði með löglegum og skipulegum hætti. „En við erum einnig reiðubúin ef það verður ekki niðurstaðan.“ 

mbl.is