Snarræði kafara skipti sköpum

Kafarinn Runar Johnsen greip búnað sinn í einu vetfangi og …
Kafarinn Runar Johnsen greip búnað sinn í einu vetfangi og kafaði eftir ökumanni niður á níu metra dýpi í gærmorgun. Vafalaust kemur bakgrunnur þessarar myndar lesendum kunnuglega fyrir sjónir en kafarinn er þarna staddur við Bláa lónið í Íslandsheimsókn vegna ráðstefnu í mars 2017. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Ég hef starfað sem björgunarkafari á sjó en þetta er í fyrsta skipti sem ég kafa eftir manneskju,“ segir kafarinn Runar Johnsen, sem á og starfar við ferðaþjónustufyrirtækið Destinasjon 71° Nord í Honningsvåg, einu nyrsta byggðarlagi Finnmerkur í Noregi, í samtali við mbl.is, en fumlaus viðbrögð Johnsens og vinnufélaga hans í gærmorgun urðu 75 ára gömlum ökumanni til lífs á ögurstundu.

Það var laust fyrir klukkan tíu í gærmorgun, níu á Íslandi, að maðurinn ók bifreið sinni út í sjó nánast við hliðina á þar sem Destinasjon 71° Nord stendur við sjávarsíðuna. Johnsen heyrði einhvern óljóst kalla og biðja um að hringt yrði í lögreglu og hlupu þeir vinnufélagarnir þá þegar út.

Þeir biðu ekki boðanna heldur ýttu Gemini-hraðbáti fyrirtækisins úr vör á meðan Johnsen hljóp eftir köfunarbúnaði sínum og skrýddist honum á mettíma.

Dró manninn út úr bílnum á níu metra dýpi

Vinnufélagarnir komu Johnsen, sem öðlaðist köfunarréttindi árið 2003, í sjóinn áður en bíllinn settist á sjávarbotninn og kafaði hann þegar niður eftir ökumanninum og náði honum út úr bílnum sem þá sat á botninum á níu metra dýpi. Þegar upp á yfirborðið var komið drifu þeir manninn meðvitundarlausan í land þar sem lögregla og sjúkrabifreið voru þá um það bil að renna í hlað.

Lífgunartilraunir báru skjótan árangur og náði ökumaðurinn hálfáttræði, sem lögregla sagði reyndar á Twitter að væri grunaður um ölvun við akstur, fljótt meðvitund en ljóst má vera að mínútur, ef ekki sekúndur, skildu milli feigs og ófeigs við Honningsvåg í gærmorgun.

„Jú, það passar, myndin er tekin við Bláa lónið,“ staðfesti Johnsen við blaðamann sem bar það undir hann að umhverfið væri kunnuglegt íslenskum augum. „Ég var staddur á Íslandi á ráðstefnu í mars 2017,“ upplýsir kafarinn snarráði að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert