Tsipras fékk traustið sem hann vildi

Alexis Tsipras kampakátur á þinginu í Aþenu í kvöld, eftir …
Alexis Tsipras kampakátur á þinginu í Aþenu í kvöld, eftir að hafa hlotið traust meirihluta þingheims. AFP

Alexis Tsipras forsætisráðherra Grikklands hafði betur í atkvæðagreiðslu á gríska þinginu í kvöld, þar sem greidd voru atkvæði um traust til ríkisstjórnarinnar. Átök og deilur hafa verið á pólitíska sviðinu þar í landi um nafngift Makedóníu, eða Fyrrverandi Júgóslavíulýðveldisins Makedóníu, eins og ríkið hefur verið kallað á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og víðar til þess að friðþægja Grikki.

Þing Makedón­íu hefur samþykkt að ríkið taki upp heitið Norður-Makedón­ía og það hefur valdið miklum titringi í grískum stjórnmálum og sprengt ríkisstjórnina. Tsipras heldur þó enn velli eftir að hafa fengið traust meirihluta þingheims í kvöld, en þó nokkrir óháðir þingmenn studdu Tsipras.

Í frétt AFP segir að þrátt fyrir þennan sigur í þinginu í kvöld sé óvissa fram undan fyrir grísku stjórnina, sem þarf að boða til atkvæðagreiðslu fyrr en síðar um hvort gríska þingið samþykki fyrir sitt leyti að Makedónía fái að heita Norður-Makedónía.

Málið er gríðarlega umdeilt og hefur leitt til mótmæla, bæði í Makedóníu og Grikklandi, enda þykir mörgum Grikkjum að Makedónía ætti bara að heita eitthvað allt annað, þar sem Makedónía er sögulega heiti héraðs í norðurhluta Grikklands, en nútímaríkið Makedónía nær yfir um það bil þriðjung þess svæðis sem hefur um aldir verið kallað Makedónía.

Talsmaður ríkisstjórnarinnar sagði að stuðningur 151 þingmanns í kvöld ætti að tryggja að ríkisstjórnin geti starfað út kjörtímabilið, sem að á ljúka í október. Þó gæti svo farið að boðað verði til kosninga í Grikklandi fyrir þann tíma, samkvæmt frétt AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert