„Ég gafst bara upp“

Eiffel-turninn í París.
Eiffel-turninn í París. AFP

Kanadískur ferðamaður, sem ásakað hefur þrjá franska lögreglumenn fyrir að hafa nauðgað henni á lögreglustöð í París höfuðborg Frakklands í apríl 2014, greindi frá því fyrir dómi í gær að verstu mistök lífs hennar hefðu verið að samþykkja að skoða stöðina.

Fram kemur í frétt AFP að tveir af þeim að minnsta kosti þremur karlmönnum sem ferðamaðurinn, Emily Spanton, segir að hafi nauðgað henni séu fyrir dómi. Ekki hefur tekist að bera kennsl á þriðja manninn en lífsýni úr þremur mönnum fannst í nærbuxum hennar.

Spanton hitti lögreglumennina á krá skammt frá lögreglustöðinni. Hún sagðist aðspurð fyrir dómi hafa verið talsvert drukkin og hafa daðrað við lögreglumennina. Eftir að hafa drukkið áfengi um tíma hafi hún ekki lengur skilið allt sem þeir voru að segja.

Tóku af henni gleraugun

Lögreglumennirnir buðu Spanton í kjölfarið að skoða lögreglustöðina með þeim orðum að hún hefði verið notuð sem sögusvið í kvikmyndum. Spanton sagðist hafa þótt það spennandi og talið að það að myndi slá á áfengisvímuna að skoða stöðina.

Lögreglustöðin hafi verið mannlaus um miðja nótt. Lögreglumennirnir hefðu boðið henni meira áfengi og neytt hana til þess að drekka stórt glas af viskíi. Síðan hafi þeir ýtt henni niður á hnén, neytt hana til munnmaka og rifið hana úr sokkabuxunum.

Spanton segir að minnsta kosti þrjá karlmenn hafa nauðgað sér en vegna áfengisvímu gat hún ekki borið kennsl á þriðja manninn. Lögreglumennirnir hafi einnig tekið af henni gleraugun hennar þannig að hún hafi ekki getað séð almennilega.

„Ég gafst bara upp, ég vildi bara að þetta væri búið. Ég hélt augunum lokuðum,“ sagði Spanton fyrir dómi. Hún hafnaði því að hafa hvatt lögreglumennina til þess að stunda kynlíf með sér en mennirnir tveir segja hana hafa samþykkt kynlífið.

Var sagt að fara heim

Þegar Spanton var að yfirgefa lögreglustöðina sagðist hún hafa sagt lögreglumanni á vakt að henni hefði verið nauðgað en sá komið fram við hana eins og fyllibyttu og sagt henni að fara heim. Hún fór í kjölfarið á aðra lögreglustöð og tilkynnti um málið.

Rannsókn sýndi að Spanton hefði tekið inn bæði þunglyndislyf og fíkniefni kvöldið sem atburðurinn átti sér stað. Lögreglumönnunum hefur ekki verið vikið frá störfum en verði þeir sakfelldir eiga þeir yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangelsi.

Fyrir liggur að lögreglumennirnir eyddu öllum skilaboðum og myndskeiðum úr símum sínum frá umræddu kvöldi. Málið var upphaflega rannsakað árið 2016 en látið niður falla á þeim forsendum að ásakanir Spantons væru ruglingslegar.

Saksóknarar fóru hins vegar fram á að málið færi fyrir dómstóla.

mbl.is