Hammond sakaður um einspil

Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands.
Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands. AFP

Fjármálaráðherra Bretlands, Philip Hammond, hefur verið harðlega gagnrýndur í kjölfar þess að símtali hans við forystumenn í bresku viðskiptalífi var lekið þar sem hann sagði meðal annars að komið yrði í veg fyrir að Bretar færu úr Evrópusambandinu án þess að samið yrði um sérstakan útgöngusamning við sambandið.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að ýmsir aðrir ráðherrar í ríkisstjórn Bretlands hafi brugðist ókvæða við fréttum af ummælum Hammonds. Einn slíkur hafi sakað fjármálaráðherrann um einspil í ósamræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar og að reyna að þrýsta á stjórnina að breyta stefnu sinni.

„Þú getur ekki tekið útgöngu án samnings af borðinu. Ef við fáum ekki samning þá segja lögin að við förum út 29. mars. Jafnvel þó að við fáum samning væri gríðarlega óskynsamlegt að útiloka möguleikann,“ er enn fremur haft eftir ráðherranum en útganga 29. mars hefur þegar verið samþykkt með lögum með eða án samnings.

„Ég tel að ríkisstjórnin geti aðeins haft eina yfirlýsta stefnu. Hún er að taka útgöngu án samnings ekki af borðinu,“ er að sama skapi haft eftir ráðherranum sem ekki er nafngreindur í fréttinni. Haft er eftir Jacob Rees-Mogg, þingmanni Íhaldsflokksins, að Hammond kunni að hafa farið gegn reglu um sameiginlega ábyrgð ráðherra á stefnu stjórnarinnar.

Þingmaðurinn segir að stefna ríkisstjórnarinnar sé enn sú að enginn samningur sé betri en slæmur samningur. Ekki væri skynsamleg pólitísk afstaða né góð samningatækni að fara í samningaviðræður með þeim skilaboðum að viðkomandi yrði að samþykkja hvað sem hinn aðilinn byði upp á vegna þess að hann yrði að ná samningi.

Jacob Rees-Mogg, þingmaður Íhaldsflokksins.
Jacob Rees-Mogg, þingmaður Íhaldsflokksins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert