Í áfalli eftir morð á Kanadabúa

Chrystia Freeland, utanríkisráðherra Kanada.
Chrystia Freeland, utanríkisráðherra Kanada. AFP

Kanadísk stjórnvöld eru sorgmædd og í áfalli eftir að kanadískur jarðfræðingur var myrtur í Burkina Faso eftir að vígamenn námu hann á brott úr gullnámu.

„Kanada er í áfalli og mjög sorgmætt yfir því að Kirk Woodman, sem var rænt 15. janúar 2019, hafi verið drepinn í Burkina Faso,“ sagði Chrystia Freeland, utanríkisráðherra Kanada.

„Kanada fordæmir þá sem bera ábyrgð á þessum hryllilega glæp. Við störfum með stjórnvöldum í Burkina Faso og öðrum erlendum félögum til að finna þá sem bera ábyrgð á þessu og koma þeim í hendur réttvísinnar.“

Talsmaður varnarmálaráðuneytis Burkina Faso sagði að Woodman hefði verið skotinn til bana. Honum var rænt á þriðjudagskvöld þegar vígamenn ruddust inn í gullnámu sem er í eigu Progress Minerals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert