Skiptinemi myrtur

Lögreglan í Melbourne biðlar til almennings um að aðstoða við …
Lögreglan í Melbourne biðlar til almennings um að aðstoða við leitina að morðingjanum. AFP

Ung ísraelsk kona var myrt á þriðjudagskvöldið í Ástralíu og er morðingjans leitað en unga konan var í símanum að ræða við systur sína þegar ráðist var á hana og hún myrt að sögn lögreglunnar.

Aiia Maasarwe, 21 árs skiptinemi við La Trobe-háskólann í Melbourne, var á heimleið eftir að hafa verið á skemmtikvöldi þegar hún varð fyrir árásinni. Lík hennar fannst skammt frá háskólagörðunum sem hún bjó á meðan hún var við nám í skólanum.

Yfirmaður rannsóknarlögreglunnar, Andrew Stamper, biðlaði í morgun til almennings um að aðstoða við leit að morðingjanum. Árásin sé hryllileg árás á unga saklausa konu sem var í heimsókn í borginni og hafði ekkert til sakar unnið. Engin skýring sé á því hvers vegna hún var myrt þetta kvöld.

Aiia Maasarwe.
Aiia Maasarwe. Skjáskot af Facebook

Maasarwe hafði tekið sporvagn heim úr klúbbi sem er í úthverfi sem nefnist Bundoora og var að ganga heim þegar ráðist var á hana. Að sögn lögreglu var hún að spjalla við systur sína, sem býr í Ísrael, þegar samtalið rofnar. Systir hennar heyrir Aii missa símann og síðan einhverjar raddir, segir Stamper. Líkið fannst ekki fyrr en sjö um morguninn en það var einhver sem átti leið um sem fann það í um 50 metra fjarlægð frá biðstöðinni þar sem hún hafði farið út úr sporvagninum við háskólagarðinn. Um svipað leyti hafði systir hennar samband við lögreglu og tilkynnti um að mögulega hafi eitthvað komið fyrir ungu konuna.

Lögreglan vildi ekki staðfesta við blaðamenn að málið væri einnig rannsakað sem kynferðislegt ofbeldi en staðfesti að kynferðisafbrotamenn væru meðal þeirra sem væru til skoðunar. Svört derhúfa og grár stuttermabolur fundust á vettvangi. 

Lögreglan birti í dag myndir af fatnaði sem fannst á …
Lögreglan birti í dag myndir af fatnaði sem fannst á vettvangi.

Fjölskylda Maasarwe er á leiðinni til Ástralíu en unga konan var í fimm mánaða skiptinámi í Ástralíu. Maasarwe ætlaði þaðan til Kína þar sem hún ætlaði að starfa fyrir föður sinn sem er með viðskipti þar í landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert