Frostenson hættir í akademíunni

Katarina Frostenson ásamt Björn Hurtig, sem varði eiginmann hennar, Jean-Claude …
Katarina Frostenson ásamt Björn Hurtig, sem varði eiginmann hennar, Jean-Claude Arnault, í nýlegum réttarhöldum þar sem Arnault var dæmdur fyrir tvær nauðganir gegn sömu konu og hlaut tveggja ára fangelsi. AFP

Samkomulag hefur náðst um það að skáldkonan Katarina Frostenson hætti formlega í Sænsku akademíunni (SA). Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem birt er á vefnum svenskaakademien.se. 

Þar er rifjað upp að SA hafi látið fara fram rannsókn á ásökunum þess efnis að Frostenson hafi rofið trúnað við SA. Eins og fjallað hefur verið ítarlega um í Morgunblaðinu á umliðnum mánuðum er Frostenson gefið að sök að hafa lekið trúnaðarupplýsingum til eiginmanns síns, Jean-Claude Arnault, þeirra á meðal upplýsingum um komandi Nóbelsverðlaunahafa. 

Sú alvarlega krísa sem SA hefur staðið frammi fyrir í rúmt ár og gerði það að verkum að ekki reyndist unnt að afhenda Nóbelsverðlaun í bókmenntum á síðasta ári stafar af því að 18 konur stigu fram síðla árs 2017 og sökuðu Arnault um kynferðislegt ofbeldi sem náði yfir margra ára tímabil. Í framhaldinu sleit SA, undir stjórn Söru Danius þáverandi ritara, öll tengsl við Arnault og fól lögfræðistofu að gera úttekt á tengslum Arnault við SA, en Arnault og Frostenson höfðu árum saman hlotið árleg fjárframlög til bókmenntaklúbbsins Forum sem þau ráku. Í umfjöllun síðasta árs um ásakanirnar sem beindust að Arnault um kynferðisofbeldi kom fram að þrír forverar Söru Danius í starfi ritara SA höfðu haft vitnesku um ásakanir á hendur Arnault um kynferðislegt ofbeldi á konum. Arnault var seint á síðasta ári dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun. 

Í fréttatilkynningunni á vef SA kemur fram að Frostenson hafi alla tíð neitað því að hafa rofið trúnað við SA. Á móti hefur Frostenson sakað SA um gallaða málsmeðferð þar sem henni hafi ekki veist tækifæri til að svara fyrir ásakanir á hendur sér, sem SA vísar á bug. 

„Katarina Frostenson velur nú að hætta formlega í Sænsku akademíunni. Í tengslum við það hafa Sænska akademían og Frostenson í sameiningu komist að samkomulagi um að það þjónaði engum hagsmunum að láta reyna á ágreining deiluaðila fyrir dómi. Sænska akademían og Frostenson hafa þess vegna gert með sér samkomulag sem felur í sér að Frostenson mun framvegis fá greiddar 12.875 krónur á mánuði ásamt stuðningi til þess að búa áfram í þeirri íbúð sem hún leigir af Sænsku akademíunni,“ segir í tilkynningunni, en þess má geta að 12.875 sænskar krónur samsvara um 173 þúsundum íslenskra króna. 

Samkomulagið byggir á tillögu sem lögmaður Frostenson sendi SA 7. janúar sl. þar sem Frostenson sagðist tilbúin að hætta í SA fyrir fullt og allt ef henni væri bætt það upp fjárhagslega svo hún geti haldið áfram að sinna ritstörfum sínum. 

Frostenson sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók 1978 og hlaut fyrir nokkrum árum Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir ljóð sín. Hún var valin inn í Sænsku akademíuna 1992. 

Á vef SA kemur fram að í samkomulaginu við Frostenson hafi verið horft til þess að Frostenson hafi starfað fyrir SA í 25 ár og lagt mikið af mörkum í starfi sínu. Af þeim sökum væri sanngjarnt að tryggja Frostenson, sem er 65 ára, nokkurs konar eftirlaun, en félagar í SA eru sem kunnugt er æviráðnir. 

mbl.is