Fundu lifandi maðka í borgurum

Óvæntir matargestir skriðu út úr hamborgurum Hanne Kristiansen og dætra …
Óvæntir matargestir skriðu út úr hamborgurum Hanne Kristiansen og dætra hennar. Líklega var þarna um að ræða síðustu kvöldmáltíð þess sem hér sést. Ljósmynd/Hanne Kristiansen/Úr einkasafni

„Við hlupum allar inn á klósett og tróðum fingrunum ofan í kok,“ segir Hanne Kristiansen, þriggja barna móðir í Sarpsborg, suður af Ósló í Noregi, um óskemmtilega reynslu sem þær mæðgurnar urðu fyrir er þær hugðust gera vel við sig með hamborgaramáltíð frá McDonald's þar í bænum skömmu fyrir jól.

„Þegar ég tók um hamborgarann minn skreið maðkur út úr hinum enda hans. Ég náði varla að byrja að gapa af undrun áður en dóttir mín æpti að það væri maðkur í hennar borgara líka,“ segir Kristiansen í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, en það var staðarblaðið Sarpsborg Arbeiderblad sem fyrst greindi frá málinu á vefsíðu sinni sem læst er öðrum en áskrifendum.

Í samtali við Dagbladet segir Kristiansen að ekki hafi staðið á viðbrögðum fjölskyldunnar sem hafi hlaupið í einni þvögu inn á baðherbergi og troðið fingrunum ofan í kok til að framkalla uppköst en ekki fylgdi sögunni hvort það hafi tekist.

Rekstrarstjórinn vantrúaður

Þegar Kristiansen hafði samband við veitingastaðinn var hún fyrst spurð hvaða máltíð mætti bjóða henni í miskabætur, „eins og eitthvað hafi getað freistað mín minna en matur frá sama veitingahúsi,“ segir hún við Dagbladet.

Daginn eftir hafði rekstrarstjóri staðarins samband við hana og kom þá í ljós að sá lagði lítinn trúnað á frásögn móðurinnar, sagði að augljóst væri að möðkunum hefði verið komið fyrir í hamborgurunum eftir á þar sem þeir hefðu aldrei lifað af steikjandi hitann á lokastigum framreiðslunnar.

Rekstrarstjórinn lofaði þó við lok símtalsins að hafa samband við Matvælaeftirlitið (n. Mattilsynet) og tilkynna maðkafundinn en þegar Kristiansen hafði samband við eftirlitið í upphafi nýs árs kannaðist enginn þar á bæ við að nokkur hefði haft samband á vegum McDonald's í Sarpsborg.

McDonald's sýndi þó þann rausnarskap að ljúka málinu með skaðabótum eftir að Sarpsborg Arbeiderblad skrifaði um málið, en þá fékk Kristiansen sendar tvö hundruð krónur (rúmar 2.800 kr. íslenskar) og blómvönd.

Matvælaeftirlitið hefur nú heimsótt McDonald's í Sarpsborg tvisvar vegna málsins en ekki fylgir sögunni hvort þá hafi leynst maðkur í mysunni.

mbl.is