Grafið í kapphlaupi við tímann

Ekkert hefur enn miðað í leitinni að Julen Rosello, tveggja ára gömlum spænskum dreng, sem datt ofan í borholu í bænum Totalan. Fátt annað kemst að hjá spænsku þjóðinni þessa dagana annað en vonin um að takist að bjarga drengnum, en þverrandi líkur er á að það takist enda fimm dagar liðnir frá því óhappið varð.

Foreldrar hans, José Rosello og Vicky García, voru að undirbúa paella-máltíð þegar þau heyrðu grát drengsins koma úr iðrum jarðar. Síðan þá hefur ekkert heyrst frá drengnum annað en skerandi þögnin. Fjölmennt björgunarlið reynir allt til þess að komast að drengnum  og meðal þeirra sem taka þátt í björgunarstarfinu eru sérfræðingar sem aðstoðuðu við að bjarga námaverkamönnum í Chile fyrir nokkrum árum. 

José Rosello segir að þau hjónin vonist til þess að engill vaki yfir þeim og aðstoði við að bjarga drengnum þeirra heilum á húfi upp á yfirborðið. 

Verið er að grafa tvenn ný göng, önnur lóðrétt og hin lárétt, til að komast að borholunni þar sem talið er að Julen sé ofan í. 

Verkfræðingur sem stýrir aðgerðunum, Juan López Escobar, segir mikilvægt að komast að staðnum þar sem drengurinn er eins fljótt og auðið er. Hann segir að yfirleitt taki það um það bil mánuð en vegna þess að líf drengsins er í húfi eru allir tímarammar foknir út í veður og vind og talað um daga, ekki vikur.  

Bæði sérfræðingar frá Spáni og Svíþjóð taka þátt í aðgerðunum en þeir komu að björgun 33 námuverkamanna sem sátu fastir í námu í Chile árið 2010. 

Talið er að borholan sem Julen féll ofan í hafi verið ómerkt en hún er 110 metra djúp og 38 cm að ummáli þar sem hún er víðust. Það þýðir að smábarn gat komist ofan í hana en hvorki foreldrar hans né björgunarfólk. 

mbl.is