Víðtæk kerfisvilla á norskum sjúkrahúsum

Gripið hefur verið til þess ráðs að handskrifa allar upplýsingar …
Gripið hefur verið til þess ráðs að handskrifa allar upplýsingar um sjúklinga þar sem upplýsingakerfi stærsta heilbrigðisumdæmis Noregs, sem þjónustar 2,9 milljónir Norðmanna, liggur niðri. Ljósmynd/Twitter

Upplýsingakerfi stærsta heilbrigðisumdæmis Noregs, Helse Sør-Øst (suð-austur), sem þjónustar 2,9 milljónir Norðmanna liggur nú niðri og er ekki hægt að nálgast sjúkraskrár eða aðrar upplýsingar um sjúklinga, að því er segir í umfjöllun NRK.

Gripið hefur verið til þess ráðs að handskrifa allar upplýsingar og munu starfsmenn sjúkrahúsanna þurfa að færa alla handskrifaða vinnu inn í tölvukerfið þegar því er komið í lag.

Um er að ræða kerfi þekkt undir skammstöfuninni DIPS og er það notað við öll sjúkrahús í heilbrigðisumdæmum norðurs, vesturs og suðausturs.

„Verið er að kortleggja umfang og framkvæma villuprófanir,“ er haft eftir upplýsingafulltrúa Sykehuspartner, Julie Dommerud. Sykehuspartner er fyrirtæki í eigu umdæmisins sem sinnir öllum tæknimálum, flæðistjórnun og mannauðsmálum.

„Háskólasjúkrahúsið í Ósló er undir. Það þýðir að allt fer fram á pappír á þessum tímapunkti. Þeir [starfsmenn] sem þegar voru innskráðir í kerfið þegar það hrundi virðast enn getað notað það til þess að prenta út upplýsingar og sjúkraskrár þeirra sjúklinga sem þegar eru innlagðir,“ segir Hedda Holt, fjölmiðlafulltrúi sjúkrahússins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert