Kæfandi hiti í Ástralíu

Hitametin falla eitt af öðru.
Hitametin falla eitt af öðru. AFP

Steikjandi hiti er í Ástralíu og hitametin falla eitt af öðru. Undanfarna daga hafa fimm dagar náð inn á lista yfir tíu heitustu dagana í landinu frá því mælingar hófust. 

Hitinn hefur víða farið í tæpar fimmtíu gráður í þessari viku en hitabylgjan hefur staðið yfir frá því á laugardag. Hitanum fylgja kjarreldar, villt dýr hafa drepist og fjölmargir hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús.

AFP

Samkvæmt bráðabirgðatölum Veðurstofu Ástralíu hefur meðalhitinn í Ástralíu mælst 40 gráður undanfarna fimm daga. Í bænum Noona í New South Wales mældist hitinn að næturlagi 35,9 gráður sem er nýtt met þar enda frekar hitatölur sem eiga við yfir hábjartan daginn. Á flestum stöðum hefur hitinn farið yfir 40-42 gráður undanfarna daga og á einhverjum svæðum er hitinn 14 gráðum hærri en í meðalári. 

Veðurfræðingar segja ástandið nú minna helst á hitabylgjuna skelfilegu árið 2013 en þá var meðalhitinn yfir 39 gráður í heila viku samfellt. 7. janúar 2013 er heitasti dagur frá því mælingar hófust en meðalhitinn þann dag var 40,3 gráður í Ástralíu.

Í bænum Tarcoola í Suður-Ástralíu var 49 stiga hiti á þriðjudag og í Port Augusta 48,9 stig.

Sjá nánar á BBC

AFP
mbl.is