May ræddi við leiðtoga ESB

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ræðir við fjölmiðla fyrr í vikunni.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ræðir við fjölmiðla fyrr í vikunni. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ræddi við leiðtoga Evrópusambandsins símleiðis í dag um næstu skref varðandi útgöngu landsins úr sambandinu.

Fram kemur í frétt AFP að May hafi rætt við bæði Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, og Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar sambandsins, en áður hafi hún verið í sambandi við þá með textaskilaboðum frá því að útgöngusamningi hennar var hafnað af neðri deild breska þingsins á þriðjudag.

Haft er eftir talsmanni Junckers að leiðtogarnir hafi skipst á upplýsingum og ákveðið að vera áfram í sambandi. Fulltrúar Evrópusambandsins hafa til þessa hafnað því ítrekað að til greina komi að semja upp á nýtt um útgöngusamninginn.

Samkvæmt breskum lögum mun Bretland segja skilið við Evrópusambandið 29. mars hvort sem tekist hafi að semja um útgönguna við sambandið eða ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert