Skrifa Bretum opið ástarbréf vegna Brexit

Yfir þrjátíu nafntogaðir Þjóðverjar hafa sent bresku þjóðinni ástarbréf þar …
Yfir þrjátíu nafntogaðir Þjóðverjar hafa sent bresku þjóðinni ástarbréf þar sem þeir lýsa aðdáun sinni á ótal hlutum tengdum Bretlandi og grátbiðja þá um að hætta við Brexit. AFP

Útganga Breta úr Evrópusambandinu er orðið eitt stærsta þrætuepli samtímastjórnmála sem og uppspretta hvers kyns sundrungar og deilna. En nú hefur orðið breyting á þar sem um þrjátíu nafntogaðir Þjóðverjar hafa sent bresku þjóðinni ástarbréf þar sem þeir lýsa aðdáun sinni á ótal hlutum tengdum Bretlandi, svo sem tei og bjór.

Þeirra á meðal er Annagret Kramp-Karrenbauer, líklegur arftaki Angelu Merkel í embætti kanslara. Í bréfunum lýsa höfundarnir einnig sorginni sem þeir búa yfir vegna skilnaðarins sem liggur í loftinu vegna Brexit.

An­ne­gret Kramp-Karren­bauer tók ný­verið við stöðu Angelu Merkel sem for­maður …
An­ne­gret Kramp-Karren­bauer tók ný­verið við stöðu Angelu Merkel sem for­maður Kristi­legra demó­krata. Hún er ein þeirra sem skrifar undir bréfið. AFP

„Eftir voðaverk seinni heimsstyrjaldarinnar gáfust Bretar ekki upp á okkur,“ segir í einu bréfinu sem birt er í The Times. Þar er lögð áhersla á að Þýskalandi hafi verið tekið opnum örmum sem lýðræðisríki í Evrópusamvinnunni sem hófst eftir stríð. „Við, sem Þjóðverjar, höfum ekki gleymt þessu og við erum þakklát,“ segir jafnframt í bréfinu, sem endar á orðunum: „Bretar ættu að vera fullvissir um að við viljum, frá okkar dýpstu hjartarótum, að þið verðið um kyrrt.“

Norbert Röttgen, formaður utanríkismálanefndar þýska þingsins, er einn þeirra sem skrifar undir bréfið og segir hann að nauðsynlegt hafi verið að grípa til aðgerða eftir atburði vikunnar, þegar Brexit-samningi bresku ríkisstjórnarinnar og ESB var hafnað á breska þinginu. Mikið óvissuástand ríkir í breskum stjórnmálum og ekki er víst hvort tilfinningaþrungin pólitísk ástarbréf frá stórmennum eins og forstjóra Airbus, Thomas Enders, eða pönk-rokksöngvaranum Campino muni hafa einhver áhrif.

Norbert Röttgen, formaður utanríkismálanefndar þýska þingsins, ásamt Angelu Merkel, kanslara …
Norbert Röttgen, formaður utanríkismálanefndar þýska þingsins, ásamt Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. AFP

Eitt nafn ætti hins vegar ekki að fara fram hjá neinum Breta, að minnsta kosti ekki fótboltaunnendum (en flokkast ekki allir Bretar sem slíkir?): Jens Lehmann, fyrrverandi markvörður þýska landsliðsins í knattspyrnu.

Jens Lehmann í leik með Arsenal, en hann lék lengi …
Jens Lehmann í leik með Arsenal, en hann lék lengi vel með þýska landsliðinu. Hann vill heldur ekki að Bretar yfirgefi ESB. AFP

Hvatinn að bréfaskrifunum er þó líklega fyrst og fremst efnahagslegur. Þjóðverjar hafa áhyggjur af því að Bretar gangi úr ESB án samnings sem getur haft skaðleg áhrif á efnahag í öllum ríkjum Evrópu.

Viðbrögð Breta við bréfinu eru misjöfn og sumir gagnrýna einfalda sýn Þjóðverja á bresku þjóðina sem drekkur bara te, sé með svartan húmor og keyrir vinstra megin á veginum. Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, tekur bréfinu fagnandi. „Þetta er skýr yfirlýsing um það sem er dagsatt – það er betra fyrir Evrópu sem og Bretland að við breytum Brexit – það er mikilvægt,“ sagði Blair í samtali við breska fjölmiðla, en hann vill boða til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit.

Hvort ástarbréfið skili tilætluðum árangri: Að sannfæra Breta um að vera í Evrópusambandinu skal ósagt látið, en Matt Frei, breskur fréttaþulur, kom með skoplega sýn á málið í færslu á Twitter þar sem hann líkir Brexit við bílslys sem Filippus drottningamaður lenti í fyrr í vikunni. Í færslunni segir: „Heyrt í bakaríi í Berlín: „Brexit er eins og einn 97 ára úr konungsfjölskyldunni á bak við stýrið. Þú veist að það er slæm hugmynd en ert of kurteis til að stöðva það.“

Fréttin er byggð á umfjöllun The New York Times

mbl.is