Víetnam vill halda leiðtogafund

Nguyen Xuan Phuc, forsætisráðherra Víetnams.
Nguyen Xuan Phuc, forsætisráðherra Víetnams. AFP

Forsætisráðherra Víetnams segir að þjóð hans sé tilbúin að halda næsta fund Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu.

Kim Yong Chol, einn af hæst settu hershöfðingjum Norður-Kóreu, mun hitta Trump í Hvíta húsinu í dag þar sem rætt verður um hinn fyrirhugaða fund, þar á meðal mögulega staðsetningu.

Trump og Kim hittust í Singapore í fyrra og eru viðræðurnar liður í afvopnun á Kóreuskaganum.

„Við vitum ekkert um lokaákvörðunina. Samt sem áður, ef hann verður haldinn hér munum við gera okkar besta til að auðvelda fundarhöldin,“ sagði Nguyen Xuan Phuc, forsætisráðherra Víetnams.

„Víetnam hefur átt gott samstarf við Bandaríkin við myndun efnahagslegra tengsla og einnig á öðrum sviðum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert