4 til 5 drukkna á degi hverjum

AFP

Þrír flóttamenn létust og að minnsta kosti fimmtán er saknað eftir að hafa lent í sjávarháska skammt fyrir utan strönd Líbýu, samkvæmt upplýsingum frá ítölsku strandgæslunni. 

Að sögn Fabio Agostini, flotaforingja í ítalska sjóhernum, var þremur flóttamönnum bjargað af áhöfn þyrlu hersins og var flogið með þá til ítölsku eyjunnar Lampedusa þar sem þeir fengu læknisaðstoð vegna ofkælingar.  

Í viðtali við ítalska ríkissjónvarpið sagði Agostini að herflugmenn hafi komið auga á smásketu í sjávarháska í gær og séð að um tuttugu manns voru um borð í bátnum. Þeir hafi séð þrjú lík á floti en ekki hafi tekist að finna bátinn og bjarga fólkinu. 

Talsmaður Rauða krossins segir að sextán lík hafi fundist á strönd hafnarborgarinnar Sirte frá 2. janúar til 15. janúar. 

Samkvæmt upplýsingum frá stofnun Sameinuðu þjóðanna um fólksflutninga, IOM, (International Organization for Migration) hafa 83 látist á flóttanum yfir Miðjarðarhaf það sem af er ári. Það er fjórir til fimm einstaklingar á hverjum degi. Tæplega tvöfalt fleiri flóttamenn hafa komið að landi í Evrópu á fyrstu sextán dögum ársins en í fyrra. Í ár eru þeir 4.216 talsins samanborið við 2.365 í fyrra.

Tölulegar upplýsingar á vef IOM

AFP
mbl.is