Morðingi framdi sjálfsvíg

AFP

Maður sem var dæmdur fyrir að hafa myrt eiginkonu sína er talinn hafa einnig myrt verjanda sinn sem hann átti í ástarsambandi við. Maðurinn, það er morðinginn, framdi sjálfsvíg í gær. 

Jose Javier Salvador Calvo stökk fram af brú í bænum Teruel í gær þegar lögregla reyndi að handtaka hann. Mál hans hefur varpað kastljósinu á löggjöf varðandi heimilisofbeldi og heitir forsætisráðherra Spánar, Pedro Sánchez, því að áfram verði tekið hart á kynbundnu ofbeldi á Spáni.

Pedro Sánchez hét þessu á Twitter en litið er á ummælin sem andsvar við Vox, stjórnmálaflokki í Andalúsíu sem meðal annars hefur á stefnuskrá sinni að vísa innflytjendum úr landi, en flokkurinn vill binda endi á lögfræðiaðstoð við konur sem verða fyrir heimilisofbeldi af hálfu eiginmanna sinna. Segir flokkurinn það vera ósanngjarna mismunun. 

AFP

Sjá nánar hér

Jose Javier Salvador Calvo, sem var fimmtugur að aldri þegar hann lést, skaut eiginkonu sína, Patricia Maurel Conte, 29 ára, til bana í maí 2003 í Aragon-héraði. Hann fékk reynslulausn árið 2017 og hóf þá ástarsamband við Rebeca Santamalia Cáncer, 47 ára, en hún hafði verið verjandi hans við réttarhöldin.

Cáncer fannst stungin til bana á heimili Salvador Calvo í höfuðstað Aragon, Zaragoza, síðdegis í gær en eiginmaður hennar hafði tilkynnt að hennar væri saknað.

Nokkrum klukkustundum fyrr hafði meintur morðingi stokkið fram af brú í bænum Teruel eftir að lögregla stöðvaði hann við hefðbundið eftirlit. 

Talskona yfirvalda í Aragon, Carmen Sánchez, segir að lögmaðurinn hafi verið fórnarlamb kynbundins ofbeldis.

Í fyrra voru 47 konur myrtar á Spáni, þar af fjórar í Aragon, þar sem tilefnið var kynbundið ofbeldi. Ein þeirra, Laura Luelmo, 26 ára kennari í Andalúsíu, var drepin í síðasta mánuði, Lík hennar fannst hálfnakið á víðavangi fimm dögum eftir að leit hófst að henni. Bernardo Montoya, fimmtugur íbúi á svæðinu, játaði síðar að hafa myrt hana eftir að hafa reynt að nauðga henni. Hann hefur áður afplánað dóm fyrir morð á konu. 

Frétt BBC

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert