„Farðu varlega, Nancy!“

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir Nancy Pelosi, forseta fulltrúardeildar Bandaríkjaþings, hafa …
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir Nancy Pelosi, forseta fulltrúardeildar Bandaríkjaþings, hafa hagað sér óskynsamlega en hún hafnaði sáttarboði forsetans sem hann lagði fram í gærkvöldi vegna deilu hans og meiri­hluta þings­ins vegna fjár­laga­frum­varps. AFP

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti kastar kaldri kveðju á Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar þingsins, á Twitter eftir að hún hafnaði sáttarboði forsetans sem hann lagði fram í gærkvöldi vegna deilu hans og meiri­hluta þings­ins, þar sem demó­krat­ar ráða ríkj­um, vegna fjár­laga­frum­varps.

Deilt er um fjár­veit­ingu upp á 5,7 millj­arða dala sem Trump vill fá til að byggja vegg á landa­mær­um Banda­ríkj­anna og Mexí­kó, en vegg­ur­inn var eitt af helstu kosn­ingalof­orðum hans. Trump hefur neitað að skrifa undir fjárlög þar sem þingið hefur ekki fallist á fjárveitingu vegna byggingu veggjarins og hefur um þriðjungur alríkisstofnana verið lokaður í mánuð vegna ágreiningsins. Hef­ur það haft áhrif á yfir 800 þúsund starfs­menn sem hafa verið launa­laus­ir.

„Nancy Pelosi hefur hagað sér óskynsamlega og er farin svo langt til vinstri að hún er orðin róttækur demókrati,“ segir Trump í færslu á Twitter, þar sem hann fór mikinn og sagði Pelosi í leiðinni að hreinsa upp götur San Francisco þar sem þær væru ógeðslegar, en Pelosi er frá borginni.

Í sátta­rboðinu fólst að hann myndi fram­lengja til þriggja ára heim­ild fyr­ir inn­flytj­end­ur sem falla und­ir DACA-úrræði, en með því fá ung­ir inn­flytj­end­ur leyfi til að dvelja í Banda­ríkj­un­um á ákveðnum for­send­um. Þeir sem hafa notið góðs af úrræðinu eru gjarn­an kallaðir Drea­mers. Trump hef­ur hingað til verið mjög mót­fall­inn þessu úrræði.

Auk þess fólst í boðinu að fram­lengja landsvist­ar­leyfi fyr­ir fólk sem kem­ur frá stríðshrjáðum lönd­um eða lönd­um þar sem nátt­úru­ham­far­ir hafa geisað. Kall­ast það úrræði TPS (e. Temporary protecti­on status). Sam­tals falla um 700 þúsund manns und­ir DACA-úrræðið og 300 þúsund und­ir TPS-úrræðið.

Trump segir einnig í færslu á Twitter að ekki standi til fjarlægja þær 11 milljónir manns sem komu til Bandaríkjanna með ólöglegum hætti en hann segir Pelosi að vera á varðbergi. „Farðu varlega, Nancy!“ segir í færslu hans. 

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hefur séð um samskipti ríkisstjórnar Trumps við þingið og segir hann að frumvarp með tillögum forsetans verði kynnt á öldungadeildaþinginu, þar sem repúblikanar hafa meirihluta, á þriðjudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert