Kjör Ts­hisekedi staðfest

Fel­ix Ts­hisekedi, son­ur fyrr­ver­andi leiðtoga stjórn­ar­and­stöðunn­ar í Aust­ur-Kongó, hef­ur verið lýst­ur sig­ur­veg­ari for­seta­kosn­inga í land­inu af æðsta dómstól landsins. 

Beðið hefur verið með óþreyju eftir lokaniðurstöðu forsetakosninganna sem fram fóru 30. desember. 

21 var í fram­boði en ásamt Ts­hisekedi voru Emannu­el Ramaz­ani Shadary, fyrr­ver­andi inn­an­ríks­i­ráðherra lands­ins, og Mart­in Fayulu, fyrr­ver­andi for­stjóri olíu­fyr­ir­tæk­is, tald­ir sig­ur­strang­leg­ir.

Martin Fayulu krafðist nýverið endurtalningar á atkvæðunum sem greidd voru í kosningunum, en bráðabirgðaniðurstöður gáfu til kynna að Felix Tshisekedi hefði hlotið 38,57% atkvæða, en Fayulu 34,8%.

Fayulu og Tshisekedi tilheyra báðir stjórnarandstöðuflokkum landsins, en Emmanuel Ramazani Shadary, frambjóðandi stjórnarflokksins, varð þriðji í kjörinu með einungis 23,8%.

Úrslitin komu mörgum á óvart, þar sem flestar kannanir sem gerðar höfðu verið í aðdraganda kosninganna bentu til þess að Fayulu yrði hlutskarpastur, en kaþólska kirkjan sagði fljótlega eftir kjörið að niðurstaðan passaði illa við þær útgönguspár sem eftirlitsmenn hennar í kosningunum hefðu látið gera.

Tshisekedi mun því taka við embætti forseta Austur-Kongó af Joseph Kabila sem hefur verið forseti um langt árabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert