Kjörtímabil Trumps er hálfnað

Trump hefur gert sjálfan sig mjög áberandi í embætti. En …
Trump hefur gert sjálfan sig mjög áberandi í embætti. En hvað hefur hann afrekað? AFP

Tvö ár eru liðin síðan Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna. Forsetinn hefur vægast sagt vakið athygli með orðum og gjörðum síðan hann tók við þessu æðsta embætti eins valdamesta ríkis heims og sé lítið að gera í heimspressunni má alltaf treysta á að hægt sé að fjalla um Trump.

Fyrsta ár Trump í embætti einkenndist helst af meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum, ferðabanni sem meinaði flóttafólki frá ákveðnum löndum að koma til Bandaríkjanna og starfsmannaveltu í Hvíta húsinu.

Velta starfsmanna í og í kringum Hvíta húsið hélt áfram á öðru starfsári forsetans, en meðal þeirra sem létu af störfum á árinu sem leið eru Tom Bossert, öryggismálaráðgjafi forsetans, Jeff Sessions dómsmálaráðherra, John Kelly, starfsmannastjóri Hvíta hússins, og síðast en ekki síst Jim Mattis varnarmálaráðherra. Þá tilkynnti Trump í desember að innanríkisráðherra Bandaríkjanna, Ryan Zinke, léti af störfum um áramótin.

Flestar afsagnirnar tengjast einhver konar ósætti á milli forsetans og þeirra sem létu af störfum eða voru látnir fara, en ein allra umdeildasta ákvörðun Trump frá því hann tók við sem forseti varð einmitt til þess að varnarmálaráðherra landsins sá sér ekki lengur fært að starfa með forsetanum.

Um miðjan desember var tilkynnt að Bandaríkin myndu draga allt herlið sitt heim frá Sýrlandi og skrifaði Trump á Twitter að Ríki íslams hefði verið sigrað og að hlutverki Bandaríkjanna í stríðinu væri lokið. Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd, bæði heima fyrir og erlendis, en óttast er að Ríki íslams geti náð styrk að nýju, yfirgefi Bandaríkjaher Sýrland.


Þingkosningar fóru fram í Bandaríkjunum á árinu, en oft er litið á þingkosningar sem prófstein fyrir vinsældir forsetans sem situr í embætti. Demókratar náðu meirihluta í fulltrúadeild bandaríska þingsins, en repúblikanar héldu öldungadeildinni. Trump leit á það sem persónulegan sigur.

Trump hefur haldið áfram þeim sið að tjá sig óspart á samfélagsmiðlinum Twitter. Þar hefur hann meðal annars léð reiði sinni útrás vegna pattstöðu sem uppi er í deilu hans vegna landamæraveggjarins fræga.

Trump, Mike Pence varaforseti og þingleiðtogar demókrata, Nancy Pelosi og …
Trump, Mike Pence varaforseti og þingleiðtogar demókrata, Nancy Pelosi og Charles Schumer, funda um lokanir ríkisstofnana. AFP

Deilan hefur vart farið fram hjá bandarísku þjóðinni, enda hafa deilur forsetans við þingið haldið um fjórðungi ríkisstofnana Bandaríkjanna í gíslingu. Forsetinn neitar að undirrita fjárlög fyrr en demókratar samþykkja fjárveitingu vegna uppbyggingar veggjarins. Þar mætir stál stáli og hefur Trump meðal annars barið hnefa í borð og strunsað út af fundum um málið. Átta hundruð þúsund ríkisstarfsmenn hafa ekki fengið greidd laun.

Ástæður þess að Trump vill byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna í suðri eru vel þekktar, en hann hefur gripið til ýmissa aðgerða í tilraun til þess að stöðva för ólöglegra innflytjenda inn í landið. Aðskilnaður barna frá foreldrum sínum á landamærunum vakti hneykslan og reiði víða um heim, en á meðan foreldrar sættu fangelsisvistum voru börn geymd í eins konar búrum. Þá létust nokkur börn í haldi bandarískra yfirvalda.

Fleiri hneykslismál skóku stjórn forsetans á árinu, en þar bar einna hæst flutning bandaríska sendiráðsins í Ísrael til Jerúasalem og fangelsisdóm yfir Michael Cohen, fyrrverandi kosningastjóra Trump, fyrir skattalagabrot, brot á lögum um fjármögnun kosningabaráttu og að hafa logið að Bandaríkjaþingi. Hann var meðal annars ákærður fyrir að greiða fyrir þögn tveggja kvenna, sem hótuðu að greina frá ástarsambandi sínu við Trump fyrir forsetakosningarnar 2016.

Klámmyndaleikkonan Stormy Daniels og Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Klámmyndaleikkonan Stormy Daniels og Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Þá hlaut tilnefning forsetans á nýjum hæstaréttardómara mikla gagnrýni, og í tilraun til þess að Brett Kavanaugh fengi ekki að taka sæti í Hæstarétti stigu nokkrar konur fram og greindu frá kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi sem hann hafði beitt þær. Það dugði þó ekki til og sór Kavanaugh embættiseið í október.

Meðal annarra verka Trump á sínu öðru ári í embætti forseta má síðan nefna fundi hans með leiðtogum Norður-Kóreu og Rússlands, viðskiptastríð og kjarnorkusamkomulagið við Íran sem forsetinn ákvað að draga Bandaríkin út úr. Þá fór Trump mikinn á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins og heimtaði aukin framlög frá sambandsaðilum.

Trump var ansi einmana í Hvíta húsinu um hátíðirnar, ef dæma má af Twitter-færslu forsetans, en eftir sem áður heldur forsetinn ótrauður áfram að deila skoðunum og hugsunum sínum með almenningi á Twitter.

Fleiri stór mál sem hafa komið upp síðasta árið er meðal annars tollastríð Bandaríkjanna við Kína, en það hófst eftir að Trump sakaði Kína um hugverkaþjófnað. Hafa síðan verið settir á tollar á stál og ál frá Kína, en Kína setti á móti tolla á innflutning sojabauna og annarra matvæla, bíla og ál. Ekki er ljóst hvernig þetta tollastríð mun enda, en tollar voru settir á fleiri vörur eftir því sem leið á árið.

Má lesa nokkrar færslur Trump á Twitter frá forsetatíð hans hér að neðan, en þar er víða komið við. Meðal annars í tengslum við rannsókn sérstaks saksóknara á meintum tengslum við Rússland, dómsmál klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels og skot á Justin Trudeau, forsætisráðherra nágrannaríkisins Kanada.

 https://www.mbl.is/frettir/erlent/2018/09/17/hafdi_enga_stjorn_yfir_twitter_faerslum_trump/
mbl.is