Prestar og líkamsræktartröll bandamenn

Prestar rétttrúnaðarkirkjunnar voru áberandi á mótmælunum. Kirkjan boðaði til mótmælanna …
Prestar rétttrúnaðarkirkjunnar voru áberandi á mótmælunum. Kirkjan boðaði til mótmælanna en hún hefur verið á móti lýðveldinu Makedóníu í þessari deilu. mbl.is/Snorri

„Grikkir eru Makedóníumennirnir.“

„Við erum Spartverjar nútímans!“

„Klausturlíf er grunnstoð þjóðfélagsins!“

Þessi slagorð voru meðal þeirra sem kyrjuð voru á götum Aþenu í Grikklandi í dag. Þar komu saman ólíkir hópar, sem þó sammæltust um eitt: Makedónía er nafn í eigu Grikkja, en ekki neins annars.

Tugir þúsunda fylktu liði á torgið fyrir framan gríska þingið í Aþenu í dag til þess að mótmæla. Menn héldu á lofti gríska fánanum og mótmæltu áformum ríkisstjórnarinnar um að viðurkenna rétt Makedóníumanna til þess að nefna ríki sitt Norður-Makedóníu.

Enn sem komið er hafa sjö verið handteknir og liði lögreglu og mótmælenda hefur sums staðar lostið saman. 25 lögreglumenn eru slasaðir eftir átök sem urðu er leið á daginn.

Blaðamaður mbl.is var á staðnum. Torgið við þinghúsið og nærliggjandi götur voru krökkar af fólki úr ýmsum þjóðfélagshópum sem á þó flest sameiginlegar þjóðernispopúlískar pólitískar hugsjónir. Þannig voru í aðra röndina áberandi prestar og aðrir kirkjunnar menn en á sama tíma gat að líta vaxtarræktarfrömuði ýmsa og unglingahópa með lambhúshettur.

Fyrir sumum var þetta fúlasta alvara: þessar lykkjur kváðu til …
Fyrir sumum var þetta fúlasta alvara: þessar lykkjur kváðu til höfuðs sjálfum Alexis Tsipras, forsætisráðherranum. Á borðanum hægra megin segir: „Lát oss verða að martröð fyrir svikara þessarar þjóðar [þeirra sem styðja Makedóníu]“. mbl.is/Snorri

Gera má ráð fyrir að margir áhangendur Gullinar dögunar hafi verið á vettvangi í dag, flokks ákafra þjóðernissinna. Sá flokkur er á öndverðum meiði við Syriza, flokk Alexis Tsipras forsætisráðherra. Þannig er Makedóníu-málið ekki síður en annað vopn pólitískra andstæðinga forsætisráðherrans til að koma á hann höggi.

Áþekkt trúarlegri samkomu

Það kom til óeirða eftir því sem leið á daginn. Hægrimenn, Nýi lýðveldisflokkurinn, saka ríkisstjórn Tsipras um að hafa fyrirskipað að táragasi yrði beitt að óþörfu. Tsipras segir að lögreglan hafi bara verið að bregðast við uppþoti meðal mótmælenda.

Þó að blaðamaður hafi ekki orðið vitni að þessum átökum var andrúmsloftið rafmagnað þar sem hann fór um. Þar hlýddu mótmælendur sem í leiðslu á ræðumenn og kyrjuðu frasa í takt. Þannig kemur ekki á óvart að soðið hafi upp úr á einhverjum tímapunkti. Tíu eru særðir, segir lögreglan.

Síðar um kvöldið var sagt frá því í fréttum að mótmælendur hafi á skipulagðan hátt ráðist að blaðamönnum og ýmist ráðist á þá eða tekið af þeim myndavélarnar.

Mótmælendur er ræðumenn þrumuðu yfir þeim á torginu. Inn á …
Mótmælendur er ræðumenn þrumuðu yfir þeim á torginu. Inn á milli var tekið hávært undir og fagnaðarlæti brutust út. mbl.is/Snorri

Kirkjan gengur hart fram 

Mótmælin í dag voru beinlínis á vegum kirkjunnar, sem setur sig, sem stofnun, upp á móti viðurkenningu nafnsins fyrir Makedóníumenn. Aðrir hópar flykktust að og má ætla að hver sá sem vill Alexis Tsipras forsætisráðherra úr embætti hafi lagt leið sína á eða í það minnsta stutt mótmælin í orði.

Gríska rétttrúnaðarkirkjan hefur í gegnum tíðina verið þessarar afstöðu, að leggjast gegn Makedóníunafninu. Nú gengur stofnunin þó venju framar hart fram í þessum efnum og er ekki fjarri lagi að tengja það þeim þreifingum meðal ráðamanna að aðskilja ríki og kirkju. Sá aðskilnaður kvað vera í ferli.

Umsvif þessara aðgerða urðu minni en kirkjan hafði gert ráð fyrir en í yfirlýsingum úr þeim ranni hafði verið gert ráð fyrir 600.000 mótmælendum. Grískir miðlar áætla að ekki hafi þeir verið fleiri en mest 60.000.

Það sem virtust vera róttækir vinstrimenn komu saman annars staðar …
Það sem virtust vera róttækir vinstrimenn komu saman annars staðar í borginni, eins og 500 metra frá, fyrir utan landsbókasafn Grikkja. Á borðanum segir „Niður með NATO-studdan Prespes-samninginn. Niður með þjóðernisstefnuna.“ Þessi hópur var fámennur og er sem segir: á móti þessu öllu saman. Veita má athygli mótórhjólahjálmunum sem menn bera og þá rauðu fánunum, sem einnig geta gegnt hlutverki kylfu. mbl.is/Snorri

Meirihluti manna orðinn afhuga deilunni

Styr stendur sem sé um heiti þessa fyrrverandi Júgóslavíulýðveldis Makedóníu. Í næstu viku kemur í hlut gríska þingsins að samþykkja eður ei hinn svonefnda Prespes-samning. Ef hann nær fram að ganga, verður það endanlega meitlað í stein, að umrætt ríki, áður Makedónía, muni til frambúðar hljóta nafnið Norður-Makedónía.

Það hefur verið deilt um nafn Makedóníu í Grikklandi frá því Júgóslavía leystist upp 1991. Árið 1992 voru þannig mótmæli í Aþenu sem kröfðust nákvæmlega hins sama og núna: að Makedóníumönnum yrði ekki leyft að bera þennan titil. Munurinn á mótmælunum þá og mótmælunum núna er hins vegar þessi: nú er um að ræða ógnarlítinn minnihluta manna sem er á þessum buxunum. Þá, árið 1992, var hins vegar allur þorri manna mótfallinn því að leyfa þeim að bera nafnið en með tímanum virðast skoðanir flestra á þessu málefni hafa mildast til muna, nema þeirra íhaldssamari.



Í baksýn er hér Syntagma, ráðhús Aþenu. Gríski fáninn víðast …
Í baksýn er hér Syntagma, ráðhús Aþenu. Gríski fáninn víðast og sums staðar fáni rétttrúnaðarkirkjunnar. mbl.is/Snorri
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert