Lýsir „Nöðruteyminu“ í Hvíta húsinu

Donald Trump Bandaríkjaforseti flytur yfirlýsingu í Hvíta húsinu. Ásigkomulag byggingarinnar …
Donald Trump Bandaríkjaforseti flytur yfirlýsingu í Hvíta húsinu. Ásigkomulag byggingarinnar er sagt valda forsetanum áhyggjum. AFP

John F. Kelly, fyrrverandi starfsmannastjóri Hvíta hússins, vildi láta lygamæla þann hóp starfsfólks Hvíta hússins sem hefur aðgang að afritunum af símtölum Donald Trumps Bandaríkjaforseta við erlenda þjóðarleiðtoga. Sjálfur er Trump svo sagður hafa reynt að finna lista yfir þá „óvini“ sem vinni á fjölmiðlaskrifstofu Hvíta hússins.

Þetta er meðal þeirra lýsinga á lífinu í Hvíta húsinu sem er að finna í nýrri bók Cliff Sims sem starfaði um tíma á fjölmiðlaskrifstofu Hvíta hússins. Bókin nefnist „Team of Vipers“, sem útleggja mætti sem „Nöðruteymið“ en Sims er stuðningsmaður forsetans og vann m.a. fyrir forsetaframboð hans.

Staður svikráða og tvískinnungs

Bókin, sem kemur út í lok mánaðarins, lýsir að sögn New York Times Hvíta húsinu sem stað sem einkennist af tvískinnungi og svikráðum. Lýsingarnar segir blaðið raunar farnar að vera nokkuð kunnuglegar út frá fyrri bókum sem komið hafa út um lífið í Hvíta húsinu í forsetatíð Trumps.

„Það er ómögulegt að neita því hversu stjórnlaust starfsfólk Hvíta hússins, ég sjálfur þar með talinn, stundum var,“ skrifar Sims, sem sagði upp í fyrra eftir að til árekstra kom milli þeirra Kellys. New York Times segir Sims skera sig frá fyrri höfundum um lífið i Hvíta húsinu með því að hlífa hvorki sjálfum sér né forsetanum í skrifum sínum.

Donald og Melania Trump. Forsetafrúin er sögð gera sitt til …
Donald og Melania Trump. Forsetafrúin er sögð gera sitt til að verja forsetann. AFP

Í bókinni er Trump lýst sem manni sem þekki lítið til stjórnsýslunnar og sem ítrekað lendi á hindrunum vegna hinna ýmsu hliða forsetaembættisins. Segir Sims Hvíta húsið hafa valdið Trump áhyggjum, en honum hafi fundist byggingin vera í hrörlegu ásigkomulagi. Þá er forsetinn sagður njóta þess að fara með gesti sína í skoðunarferðir um vesturálmuna, þar sem hann sýni gestum jafnvel einkasalerni sitt og lítið vinnuherbergi sem hann lét breyta í borðstofu með veggfestu sjónvarpi.

Trump er einnig sagður útskýra ítarlega fyrir ráðgjöfum sínum hversu mikilvægur textaborðinn neðst á sjónvarpsskjánum sé, þar sem margir hafi slökkt á hljóðinu þó að kveikt sé á sjónvarpinu.

Melania sögð verja forsetann

Bókin sýnir þó forsetann ekki bara í neikvæðu ljósi en þar lýsir Sims m.a. á hjartnæman hátt viðbrögðum Trumps við láti fyrsta hermannsins eftir að hann tók við forsetaembættinu.

Þá dregur hann upp aðra mynd af hjónabandi forsetans og Melaniu Trump en þá sem fjölmiðlar hafa hingað til dregið fram. Lýsir Sims forsetafrúnni sem svo að hún reyni að verja forsetann. Segir hann m.a. frá því er hún hringdi í Trump vegna greinar um fyrsta starfsmannastjóra hans á fréttavefnum Politico og lagði þar til að hann léti hann fara.

Samskiptum Trumps og Paul D. Ryan, fyrrverandi forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, er hins vegar lýst sem erfiðum, m.a. eftir óeirðirnar í Charlottesville. Þannig lýsir Sims því að Trump hafi rokið út af fundi með Ryan í Hvíta húsinu til að horfa á sjónvarpið í næsta herbergi. Hann hafi svo snúið aftur og fundað áfram með Ryan stuttu síðar.

Ráðning Anthony Scaramucci sem samskiptastjóra Hvíta hússins er sögð hafa …
Ráðning Anthony Scaramucci sem samskiptastjóra Hvíta hússins er sögð hafa þjónað sínu hlutverki, þó að Scaramucci hafi ekki enst nema 11 daga í starfi. AFP

Segir Scaramucci hafa þjónað hlutverki sínu

Deilum og ringulreið meðal starfsfólks er þá lýst ítarlega í bókinni. Þá lýsir Sims eigin þætti í að koma Anthony Scaramucci í embætti samskiptastjóra Hvíta hússins. Scaramucci entist 11 daga í því starfi, en náði þó á þeim tíma að þjóna því hlutverki sem Trump-fjölskyldan vonaðist til, þ.e. að bola Reince Priebus úr embætti starfsmannastjóra Hvíta hússins.

Í einum kaflanum lýsir Sims þá því er Sarah Huckabee Sanders, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, útskýrir fyrir Trump að það sé lítið hægt að gera varðandi blaðamann sem forsetinn kunni ekki við. Á Trump að hafa spurt hana af hverju ekki væri hægt að víkja blaðamanninum frá störfum.

Annars staðar lýsir Sims því er Stephen Miller, eins helsti ráðgjafi forsetans varðandi stefnumótun, grefur undan fyrrverandi bandamanni sínum, Stephen K. Bannon. Er Miller sagður hafa biðlað til Jared Kushner, tengdasonar og ráðgjafa Trumps, að ræða við forsetann, þar sem Bannon „leki“ upplýsingum í fjölmiðla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert