Neitar að hafa vitað að nautið var hross

Spanghero er ákært fyrir að hafa selt rúm 200 tonn …
Spanghero er ákært fyrir að hafa selt rúm 200 tonn af hrossakjöti, sem aðallega hefði verið unnið í pylsur. AFP

Réttarhöld eru að hefjast yfir fjórum aðilum vegna hrossakjötshneykslisins sem skók Evrópu árið 2013. BBC segir tvo fyrrverandi stjórnendur frönsku Spanghero-kjötvinnslunnar hafa verið ákærða ásamt tveimur hollenskum seljendum hrossakjötsins.

Fjórmenningarnir eru ákærðir fyrir að nota ódýrt hrossakjöt í vörur sem áttu að innihalda nautakjöt og sem seldar voru víða um Evrópu.

Annar Frakkanna neitar því að alfarið að hafa vitað að hann var að kaupa hrossakjöt, að því er Reuters-fréttastofan greinir frá, en annar kjötsalinn segir honum hafa verið fullkunnugt um hvaða kjöt hann var að kaupa.

Ekki liggur enn fyrir hvort sakborningarnir muni lýsa sig seka eða saklausa, en málið er rekið fyrir dómstól í París.

Jacques Poujol, (t.h.) einn stjórnenda Spanghero kjötvinnslunnar, ásamt lögfræðingi sínum. …
Jacques Poujol, (t.h.) einn stjórnenda Spanghero kjötvinnslunnar, ásamt lögfræðingi sínum. Hann neitar að hafa vitað að nautakjötið var í raun hrossakjöt. AFP

Milljónir kjötmáltíða voru innkallaðar úr hillum stórverslana eftir að upp komst að þær innihéldu hrossakjöt í stað nautakjöts. Eru írsk yfirvöld sögð hafa uppgötvað snemma árs 2013 að frosnir hamborgarar með innihaldsmerkinguna „hreint nautakjöt“ reyndust þess í stað innihalda hrossakjöt.

Hirtu ágóðann af sölunni

Fjórmenningarnir eru ákærðir fyrir að aðstoða við að skipuleggja sölu á rúmum 500 tonnum af hrossakjöti á árunum  2012-2013 til Comigel, dótturfyrirtækis Spanghero, sem seldi tilbúnar frosnar máltíðir til tuga Evrópuríkja.

Þá er Spanghero ákært fyrir að hafa selt rúm 200 tonn af hrossakjöti, sem aðallega hafði verið unnið í pylsur.

Rannsókn sem unnin var eftir að upp komst um svikin leiddi í ljós að kjötið átti uppruna sinn í rúmenskum sláturhúsum. Hrossakjötið kom svo til Vestur-Evrópu í gegnum Kýpur og Holland og var þar merkt ranglega sem nautakjöt. Eru forsvarsmenn Spanghero og hollensku kjötsalarnir ákærðir fyrir að hafa hirt ágóðann.

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Spanghero, Jacques Poujol, og stjórnandi kjötverksmiðju fyrirtækisins, Patrice Monguillon, eiga yfir höfði sér fjölda ákæra um svik. Lögfræðingur Poujol segir hann ekki hafa vitað að hann hafi verið að kaupa hrossakjöt. Kjötsalinn Johannes Fasen, sem er ákærður í málinu ásamt Hendricus Windmeijer, segist hins vegar ekki hafa farið dult með að hann væri að selja hrossakjöt.

„Skjólstæðingur minn seldi Poujol hrossakjöt af því að hann pantaði hrossakjöt. Hann seldi Poujol hrossakjötið á hrossakjötsverði og Spanghero seldi það áfram sem nautakjöt,“ sagði lögfræðingur Fasen.

Fjórmenningarnir eiga allt að 10 ára fangelsisdóm yfir höfði sér, sem og sektargreiðslu sem nemur allt að einni milljón evra, eða um 138 milljónum króna.

mbl.is