Áhlaup á ítölsku mafíuna

AFP

Ítalska mafían lifir góðu lífi og hefur ný kynslóð tekið við áhrifastöðum innan glæpasamtakanna. Ítalska lögreglan gefst ekki upp í baráttunni við að uppræta glæpasamtökin og í morgun voru sjö félagar í samtökunum handteknir.  

Ítalska lögreglan greindi frá því í dag að sjömenningarnir hafi verið handteknir í kjölfar upplýsinga sem fengust hjá tveimur uppljóstrurum sem áður störfuðu innan sikileysku mafíunnar.

Í desember voru á annan tug félaga í sikileysku mafíunni (Cosa nostra) handteknir. Þar á meðal skartgripasali sem var handtekinn skömmu áður en hann tók formlega við sem foringi foringjanna hjá ráði mafíuforingja (Cupola) á Sikiley.

Tveir þeirra sem voru handteknir ákváðu að venda kvæði sínu í kross og gerast uppljóstrarar. Þeir hafa síðan þá veitt upplýsingar um mafíuforingja sem tilheyra ráðinu. Þeirra á meðal Leandro Greco, barnabarn Michele Greco sem var nefndur páfinn, og Calogero Lo Piccolo, sem er sonur þekkts mafíósa, Salvatore Lo Piccolo, sem var þekktur sem baróninn, il Barone. Lo Piccolo eldri er foringi einnar valdamestu mafíunnar í Palermo á Sikiley. 

Michele Greco lést í Róm árið 2008 en viðurnefnið il Papa fékk hann vegna hæfileika hans til þess að koma á sáttum milli manna innan ólíkra mafíufjölskyldna. Greco var á sínum tíma foringj foringjanna.  

Tvímenningarnir voru handteknir í dag ásamt Giovanni Sirchia sem er sakaður um að vera sendiboði mafíunnar. Að sögn uppljóstraranna er unnið að því að blása nýju lífi í Cosa Nostra, sikileysku mafíuna. Ráðið, Cupola, hafði ekki komið saman árum saman og enginn foringi foringjanna hafði verið valinn í stað Toto Riina sem lést árið 2017. Riina, sem var einn þekktasti mafíuforingi Sikileyjarmafíunnar, lést úr krabbameini 87 ára að aldri.

Riina var að afplána 26 lífstíðardóma þegar hann lést, en talið er að hann hafi skipað fyrir um að minnsta kosti 150 morð. Riina, sem bar viðurnefnið „skepnan“, vakti mikla athygli fyrir grimmd sína, en hann tók við yfirstjórn Sikileyjarmafíunnar á áttunda áratug 20. aldar.

Sá sem átti að taka við af Riina, Matteo Messina Denaro, er á flótta og margir aðrir mafíuforingjar sitja á bak við lás og slá.

Denaro gengur einnig undir nafninu Diabolik en nafnið kemur frá persónu í ítalskri teiknimyndasögu. Frægð Matteo Messina Denaro náði langt út fyrir Sikiley eftir að tímaritið L'Espresso birti mynd af honum á forsíðu sinni 12. apríl 2001 með fyrirsögninni: Ecco il nuovo capo della Mafia (Þetta er nýi mafíuforinginn). Hann hefur verið á flótta frá 1993 og samkvæmt Forbes-tímaritinu er hann einn þeirra tíu glæpamanna hvers hári yfirvöld vilja hafa hendur í. 

mbl.is
STIGAR OG HANDRIÐ ALLAR MÖGULEGAR GERÐIR
Hagstæð verð, sjá meðal annars: http://www.youtube.com/watch?v=73dIQgOl2JQ...
Vantar gæslu fyrir kisu/kisann?
www.kattholt.is rekur hótel fyrir kisu/kisann. kattholt@kattholt.is // s;567 ...
Nissan Qashqai 2018. Ekinn aðeins 14þ km. Ekki bílaleigubíll
https://bland.is/classified/entry.aspx?classifiedId=3933554 NISSAN QASHQAI, 4...