Gluggi varð ferðamanni að bana

Hong Kong.
Hong Kong. AFP

Hótelstarfsmanni hefur verið sleppt úr haldi gegn tryggingu eftir að hann var handtekinn eftir að gluggi sem hann var að þrífa féll til jarðar í Hong Kong og varð ferðamanni að bana

Að sögn lögreglunnar lést 24 ára kínversk kona þegar glugginn féll á hana af 16. hæð á Mira-hótelinu í verslunarhverfinu Tsim Sha Tsui í gær.

Hún var flutt á sjúkrahús en læknum tókst ekki að bjarga lífi hennar. Vinur hennar sem var með henni á gangi varð einnig fyrir glugganum en slapp með minni háttar meiðsl.

Að sögn lögreglunnar var aðeins hægt að opna gluggann með sérstökum lykli sem starfsfólk hótelsins hafði. „Við teljum að sá sem var að þrífa hafi reynt að opna hann og þá hafi hann dottið af um leið og hann var opnaður.“

Mira-hótelið var í umræðunni árið 2013 þegar uppljóstrarinn Edward Snowden dvaldi þar eftir að hann flúði frá Bandaríkjunum. 

mbl.is