Ný ríkisstjórn í Noregi kynnt

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, kynnti ríkisstjórn sína í dag.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, kynnti ríkisstjórn sína í dag. AFP

Ný ríkisstjórn Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, var kynnt í dag og er um að ræða fyrstu meirihlutastjórn hægriflokka þar í landi frá árinu 1985, ásamt því að aldrei hafa verið skipaðir fleiri ráðherrar í sögu norskra stjórnmála, að því er fram kemur í umfjöllun norska ríkisútvarpsins NRK.

Nýtt stjórnarsamstarf var samþykkt 18. janúar, eftir að Kristilegi þjóðarflokkurinn ákvað að ganga til liðs við ríkisstjórn Hægriflokksins, Framfaraflokksins og Frjálslynda flokksins (n. Venstre).

Áður voru 18 ráðherrar í ríkisstjórn Ernu Solberg sem var sett saman af Hægriflokknum og Framfaraflokknum. Solberg hafði lýst því yfir árið 2013 að markmið ríkisstjórnarinnar væri að fækka ráðherrum.

Eftir að Frjálslyndi flokkurinn og Kristilegi þjóðarflokkurinn ákváðu að ganga í ríkisstjórnina, sem þeir höfðu áður varið falli í þinginu, var ákveðið að fjölga ráðherrum um fjóra. Solberg segist þó hafa staðið við fyrri loforð þar sem ráðuneytum hefur fækkað.

Þá hafa aðstoðarráðherrar (n. statssekretær) og pólítískir ráðgjafar aldrei verið fleiri og eru þeir nú 69 talsins.

Ríkisstjórninni mótmælt

Kjell Ingolf Ropstad, annar varaformaður Kristilega þjóðarflokksins sem barðist með því að ganga til liðs við ríkisstjórnina í andstöðu við formann síns flokks, verður nýr ráðherra barna- og fjölskyldumála. Ropstad varð umdeildur eftir að hafa tjáð sig um að skilyrði flokksins fyrir þátttöku í ríkisstjórninni myndi meðal annars verða að herða löggjöf um þungunarrof.

Hópur mótmælenda mætti við konungshöllina í Ósló í dag íklæddur rauðum kyrtlum líkt og nýttir hafa verið í fleiri mótmælum er tengjast stöðu kvenna, en kyrtlarnir vísa til þáttanna The Handmaid‘s Tale.

Nýju ráðherrarnir

Ekki er mikið um breytingar á ráðherraskipan nýrrar ríkistjórnar Solbergs, en einhverjar tilfærslur hafa orðið og eins hafa ný ráðherraembætti orðið til.

Trine Skei Grande, formaður Frjálslynda flokksins, heldur áfram sem menningarmálaráðherra, en tekur einnig við jafnréttismálum.

Nikolai Astrup, úr Hægriflokknum sem áður var ráðherra þróunarmála, verður nýr ráðherra tæknivæðingar. Þá tekur Dag Inge Ulstein úr Kristilega þjóðarflokknum við sem nýr ráðherra þróunarmála.

Tor Mikkel Wara úr Framfaraflokknum heldur áfram sem dóms- og innflytjendamálaráðherra, en þjóðaröryggismál verða færð til nýs ráðherra samfélagsöryggis, Ingvil Smines Tybring-Gjedde, sem er flokkssystir hans.

Olaug Bollestad úr röðum Kristilega þjóðarflokksins verður nýr ráðherra landbúnaðarmála og matvæla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert