Telja 20.000 konur í haldi í Malí

Götumynd frá Kidal í norðurhluta Malí. Myndin tengist fréttinni ekki …
Götumynd frá Kidal í norðurhluta Malí. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP

Óttast er að allt að 20.000 konur og stúlkur frá Nígeríu hafi verið seldar til Malí, þar sem þær séu nú strandaglópar eftir að hafa verið neyddar til að stunda vændi. Frá þessu greindi NAPTIP, nígerísk stofnun sem vinnur gegn smygli á fólki, í dag.

Julie Okah-Donli, forstjóri NAPTIP, sagði rannsóknarteymi stofnunarinnar hafa, ásamt upplýsingum frá stofn­un Sam­einuðu þjóðanna um fólks­flutn­inga (IOM), hafa sýnt fram á umfang smyglsins eftir heimsókn til suðurhluta Malí í síðasta mánuði.

Mánuðina á undan hafði þá tugur kvenna og stúlkna verið fluttur aftur heim til Nígeríu frá Kangaba í suðurhluta Malí. Sagði Okah-Donli teymið hafa fundið hundruð kvenna og stúlkna til viðbótar sem voru í haldi á svæðinu.

„Þeir fengu öruggar upplýsingar frá heimamönnum um að yfir 200 slíkir staðir væru dreifðir víðs vegar um suðurhluta Malí. Í hverjum kofa voru á bilinu 100-150 stúlkur í haldi og það var þannig sem við komum okkur niður á þá tölu að að minnsta kosti 20.000 væru í haldi.“

Konunum og stúlkunum, sem flestar voru á aldrinum  16-30 ára, hafði verið sagt að farið yrði með þær til Malasíu þar sem þær fengju vinnu sem þjónustustúlkur. Þessi í stað voru þær neyddar til að stunda vændi.

„Þeim er haldið við hræðilegar, þrælslegar aðstæður,“ sagði Okah-Donli. „Þær geta ekki flúið af því að þeim er haldið á afskekktum stöðum, til að mynda langt inni í skógi.“

Reuters segir þúsundir kvenna og stúlkna vera teknar árlega frá þessu fjölmennasta ríki Afríku, en þar lifa um 70% íbúa á tekjum sem jafngilda innan við 250 kr. á dag. Meirihluti þeirra er fluttur til Evrópuríkja, en nokkur hópur er þó líka fluttur til annarra Afríkuríkja, m.a. Gana, Búrkína Fasó og Fílabeinsstrandarinnar.

Sagði Okah-Donli NAPTIP nú eiga í samstarfi við IOM en stofnunin sá um að koma 41 konu heim frá Malí í lok síðasta árs og vinnur nú að því að losa fleiri úr ánauðinni.

mbl.is