Efnir til keppni um draumahúsið

Alla Wagner kveðst þurfa að yfirgefa húsið sökum hrakandi heilsu.
Alla Wagner kveðst þurfa að yfirgefa húsið sökum hrakandi heilsu. Ljósmynd/Write a Letter, Win a House

Kanadísk kona hefur brugðið á það ráð að halda bréfaskriftakeppni til þess að skera úr um hver fær að eignast fjögurra herbergja hús hennar skammt frá borginni Calgary. BBC greinir frá.

Alla Wagner kveðst þurfa að yfirgefa húsið sökum hrakandi heilsu, en henni hefur gengið illa að selja húsið, sem kostar 1,7 milljónir kanadískra dollara, rúmar 150 milljónir króna.

Hún hafði heyrt um svipaðar keppnir og ákvað því að láta keppendur svara spurningunni „Hvernig myndu flutningar í þetta draumahús við vatnið breyta lífi þínu?“ Keppendur þurfa að borga 25 dollara til þess að taka þátt.

„Það er ekki hægt að verðleggja minningarnar um lífið sem fjölskylda mín hefur átt í þessu húsi,“ segir Wagner. Hún segir húsið tilvalið afdrep fyrir listmenn og rithöfunda, en þeir þurfa að sýna sínar listrænu hliðar við bréfaskrifin ætli þeir að hreppa stóra vinninginn.

mbl.is