Fundu beinagrind á svæði gróðureldanna

Brunarústir í Malibu eftir Woolsey gróðureldana. Lögregla reynir nú að …
Brunarústir í Malibu eftir Woolsey gróðureldana. Lögregla reynir nú að ákvarða hvort brunnin beinagrind sem fannst sé af fórnarlambi eldanna. AFP

Brunnin beinagrind fannst á mánudag á einu þeirra svæða í strandbænum Malibu sem urðu illa úti í gróðureldunum sem þar fóru yfir í nóvember. Reuters-fréttaveitan hefur eftir talsmanni lögreglu í Los Angeles-sýslu að rannsakendur reyni nú að ákvarða hvort hinn látni hafi verið fórnarlamb glæps eða hafi látist af völdum eldanna.

Beinagrindin fannst síðla dags á mánudag og hefur lögregla verið með málið til rannsóknar síðan. Trina Schrader hjá lögregluyfirvöldum Los Angeles segir kyn og dánarorsök, sem og hvort viðkomandi hafi verið myrtur, vonandi liggja fyrir að lokinni krufningu.

„Þetta er rannsókn á dauðsfalli og morðdeild okkar er með málið til skoðunar,“ sagði hún og bætti við að ekki hefðu verið nein sýnileg merki um ofbeldi á vettvangi eða á líkinu sjálfu.

Lögregla biðlar nú til almennings að hafa samband ef fólk telur sig hafa einhverjar upplýsingar sem geti gagnast við rannsóknina, eða mögulega aðstoðað við að bera kennsl á líkið.

Þetta er annað líkið sem fundist hefur í Malibu eftir Woolsey-gróðureldana, en húseigandi sem var að skoða umfang skemmda eftir eldana fann hluta af brunnu líki á landareign sinni í nóvember. Ekki hefur enn tekist að bera kennsl á hinn látna, en talið er að hann hafi verið látinn áður en eldarnir kviknuðu.

Vitað er til þess að þrír hafi farist í Woolsey-eldunum, sem kviknuðu í Kaliforníu á sama tíma og Camp-gróðureldarnir sem urðu 86 manns að bana og reyndust þeir mannskæðustu í sögu ríkisins.

Talið er að tjón af völdum eldanna tveggja nemi á bilinu 9-13 milljörðum Bandaríkjadala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert