Nunnur lugu að stúlku í klaustri

Nunnurnar í Nazareth-klaustrinu lugu að Yvonne að hún væri munaðarlaus.
Nunnurnar í Nazareth-klaustrinu lugu að Yvonne að hún væri munaðarlaus. Ljósmynd/Google

Rannsóknarnefnd um barnamisnotkun í Skotlandi hefur borist tilkynning frá konu þar sem hún greinir frá því að nunnur sem önnuðust hana þegar hún var ung stúlka hafi logið að henni að foreldrar hennar væru dánir og að hún ætti enga fjölskyldu.

Yvonne Radzevicius, sem er 76 ára, segir að hún hafi komist að sannleikanum áratugum seinna, eftir að hún fékk bréf frá guðmóður sinni árið 1975. Í bréfinu stóð að foreldrar hennar væru á lífi og að hún ætti fimm systkini.

Yvonne var gefið nýtt nafn þegar hún var í umsjá nunna í Nazareth-klaustrinu í Glasgow. Þegar hún var tíu ára var hún send í annað Nazareth-klaustur, í Perth í Ástralíu. Þar var hún misnotuð, líkamlega, andlega og kynferðislega, að eigin sögn.

Þegar Yvonne hafði loks samband við fjölskyldu sína segir hún að það hafi verið ómögulegt að mynda tengsl við hana. „Það var um seinan. Ég hitti móður mína einu sinni. Í annað skipti sem ég hitti hana var til að bera kennsl á lík hennar,“ segir Yvonne í samtali við breska ríkisútvarpið.

Send til Ástralíu og þrælað út í eldhúsinu

Rannsóknarnefndin, sem hefur aðsetur í Edinborg, hefur mál Yvonne og fleiri barna til skoðunar sem dvöldu í Nazareth-klaustrinu. Nefndin hefur meðal annars fengið þær upplýsingar að móður Yvonne var tjáð á sínum tíma að dóttir hennar hefði verið ættleidd af „góðri kaþólskri fjölskyldu“ í Queensland.

Raunin var hins vegar sú að Yvonne var send í annað klaustur um 300 kílómetra norður af Perth. Yvonne sagði nefndinni að hún hefði hætt í skóla 14 ára og verið neydd til að vinna í eldhúsi klaustursins frá morgni til kvölds í þrjú ár án þess að fá greitt. Þá lýsti hún fyrir nefndinni hvernig ein nunnan hafi barið höfði hennar svo fast í glugga að rúðan brotnaði.

Ófær um að elska

Yvonne var einnig misnotuð kynferðislega af tveimur mönnum sem störfuðu klaustrinu. „Þú varst of hrædd við nunnurnar og of hrædd við þá (mennina) til að segja nokkuð,“ segir hún.

Misnotkunin hefur haft áhrif á Yvonne allt hennar líf, að eigin sögn, og hvernig hún hefur komið fram við sín eigin börn. „Mest af öllu vildi ég óska þess að einhver hefði sýnt mér hvernig á að elska því ég gat ekki sýnt mínum eigin börnum væntumþykju.“

mbl.is