Segir Trump hafa hótað honum

Cohen og Trump á samsettri mynd.
Cohen og Trump á samsettri mynd. AFP

Fyrrverandi lögmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta, Michael Cohen, hefur frestað vitnisburði sínum á Bandaríkjaþingi vegna þess að hann segir forsetann hafa hótað honum.

Þetta sagði lögmaður Cohens, Lanny Davis, í dag.

Ekkert er tilgreint nánar um hótanirnar en þær eru sagðar hafa komið bæði frá Trump og núverandi lögmanni hans, Rudy Giuliani, að því er segir í yfirlýsingu frá Davis.

Cohen átti að mæta fyrir nefnd á Bandaríkjaþingi 7. febrúar og greina frá starfi sínu fyrir Trump, þar á meðal samskiptum við Rússa fyrir forsetakosningarnar árið 2016 og þær leynilegu greiðslur sem hann er sagður hafa innt af hendi, að beiðni Trump, til tveggja fyrrverandi ástkvenna forsetans.

„Vegna hótana forsetans Trump og Guiliani gegn fjölskyldu hans, sem voru síðast hafðar uppi um helgina, auk samstarfs Cohen í rannsókninni sem er í gangi, hefur verið ákveðið að fresta vitnisburði hans þangað til síðar,“ sagði Davis.

„Öryggi fjölskyldu Cohens verður að vera í fyrirrúmi.“

Rudy Giuliani.
Rudy Giuliani. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert