Óttast að hafís hverfi af Barentshafi á áratug

Vara vísindamenn við því að breytingar í Barentshafinu kunni að …
Vara vísindamenn við því að breytingar í Barentshafinu kunni að reynast vatnaskilin sem valdi því að nýir útpóstar norðurheimskautsins verði úti fyrir ströndum Síberíu. Kort/Google

Þær loftslagsbreytingar sem nú eiga sér stað við Barentshafið kunna að breiðast yfir til annarra svæða á norðurheimskautinu. Vara vísindamenn við því að breytingar í Barentshafinu kunni að reynast vatnaskilin sem valdi, eftir því sem höfin hlýna meira, því að veðurfar heimskautasvæðanna verði sambærilegt veðurfari yfir Atlantshafinu.

Fram kom á ráðstefnu sem haldin var í Noregi að svo kunni að fara að Karahafið og Laptevhafið, sem eru yfir Síberíu, verði hinir nýju útpóstar norðurheimskautsins. Vara vísindamenn við því að þetta muni hafi áhrif á vistkerfi jarðar og kunni einnig að hafa áhrif á veðrakerfin.

Fjallað er um málið á vef BBC sem segir áhyggjur vísindamannanna m.a. beinast að því að heimskautaveðurfar hafi ríkt á Barentshafi frá lokum síðustu ísaldar fyrir 12.000 árum. Hafísinn sem legið hefur yfir Barentshafinu er þar hins vegar ekki lengur og viðheldur fyrir vikið ekki köldu ferskvatnslagi sem hefur verið eins og lag yfir hlýrri og saltari sjó Atlantshafsins. Fyrir vikið er saltur sjórinn nú kominn upp á yfirborðið. Segja vísindamenn því að Barentshafið geti í raun verið orðið hluti af Atlantshafinu á innan við áratug.

Dr Sigrid Lind hjá Bjerknessenteret for klimaforskning sagði ráðstefnugestum að brotni lagskipting heimskautahafsins á þessu svæði með öllu niður kunni sú breyting að verða óafturkræf.

Breytingarnar séu svo hraðar að Barentshafið í heild sinni kunni að vera orðið íslaust innan nokkurra áratuga, jafnvel innan 10 ára.

„Þetta er líklega fyrsta samtímadæmið um hraðar loftslagsbreytingar — að hluti norðurheimskautsvæðisins verði veðurfarslega að Atlantshafssvæði. Svona hliðrun átti sér stað á Norðursjónum á síðustu ísöld og þegar breytingin varð gerðist hún mjög hratt,“ hefur BBC eftir Lind.

„Þetta sýnir að norðurheimskautið er að bregðast við einnar gráðu hlýnuninni sem við búum við í dag með því að skreppa saman og missa hluta ytri marka sinna til Atlantshafssvæðisins.“

Segir BBC aðra vísindamenn hafa bent á að aðrir þættir kunni mögulega að eiga hlut að máli, t.d. breytingar á vindum sem virðast nú gera meira af því að blása hafísnum burt af Barentshafinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert