Lofar Maduro friðhelgi fari hann frá

Juan Guaido (t.v.), leiðtogi stjórnarandstöðunnar, lýsti sig starfandi forseta á …
Juan Guaido (t.v.), leiðtogi stjórnarandstöðunnar, lýsti sig starfandi forseta á miðvikudag. Nicolas Maduro (t.h.) hefur gegnt forsetaembættinu frá 2013. AFP

Juan Guaido, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela sem lýsti sig forseta í fyrradag, lofar Nicolas Maduro forseta friðhelgi fari hann friðsamlega frá völdum. Hann virðist hins vegar ætla að sitja sem fastast.

Alþjóðasamfélagið skiptist í fylkingar vegna stjórnmálstöðunnar sem upp er komin í landinu. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman á morgun til að ræða valdabaráttu leiðtoganna og fjölmenn mótmæli sem hafa staðið yfir í landinu síðustu daga.

Fjölmennasti mótmælafundurinn hefur verið í höfuðborginni Caracas og brotist hafa út hörð átök á milli mótmælenda og öryggislögreglu, sem hefur meðal annars beitt táragasi og gúmmíkúlum til að bregðast við grjótkasti mótmælenda.

Nokkrir hafa látið lífið í mótmælunum en fjöldi þeirra hefur ekki fengist staðfestur. Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, staðfestir að yfir 350 manns hafi verið handteknir, flestir á miðvikudagskvöld eftir að Guaido lýsti sig forseta.

Meðal ríkja sem styðja Guaido eru nágrannaríkin Brasilía, Kólumbía og Perú, sem og Bandaríkin, Kanada og Frakkland. Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, hvetur til þess að boðað verði til forsetakosninga sem fyrst.

Á sama tíma hafa stjórnvöld í Rússlandi og Kína fordæmt stuðning erlendra ríkja og segja aðgerðir Guaido tilraun til valdaráns.

mbl.is