Öryggisráðið komi saman vegna Venesúela

Juan Guaido lýsti sig starfandi forseta í miðjum mótmælum gegn …
Juan Guaido lýsti sig starfandi forseta í miðjum mótmælum gegn Nicolas Maduro, sitjandi forseta, og hafa mótmælin haldið áfram síðan og hafa tugir þúsunda komið saman í stærstu borgum Venesúela. AFP

Bandaríkin hafa óskað eftir því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna komi saman vegna yfirvofandi stjórnmálakrísu í Venesúela.

Bandarísk yfirvöld styðja Juan Guaido, þingforseta Venesúela og leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem lýsti sig starfandi forseta á miðvikudag. Guaido hefur mætt andstöðu hersins og hefur Nicolas Maduro, for­seti Venesúela, til­kynnt að sendi­ráði og ræðismanns­skrif­stof­um Venesúela í Banda­ríkj­un­um verði lokað.

Lagt er til að ráðið komi saman á morgun, laugardag, klukkan 14 að íslenskum tíma. Búist er við því að Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, verði viðstaddur fundinn, en hann segir stjórn Maduro ólögmæta.

Guaido lýsti sig starfandi forseta í miðjum mótmælum gegn Maduro og hafa mótmælin haldið áfram síðan og hafa tugir þúsunda komið saman í stærstu borgum Venesúela. Í höfuðborginni Caracas brutust út átök milli mótmælenda og öryggislögreglu og köstuðu mótmælendur grjóti að lögreglu sem beitti táragasi og gúmmíkúlum. Talið er að 26 hafi látið lífið í mótmælum undanfarna daga.

Juan Guaido (t.v.), leiðtogi stjórnarandstöðunna, lýsti sig starfandi forseta á …
Juan Guaido (t.v.), leiðtogi stjórnarandstöðunna, lýsti sig starfandi forseta á miðvikudag. Nicolas Maduro (t.h.) hefur gegnt forsetaembættinu frá 2013. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert