Titrar og svitnar við 42 gráður

„Það er svo þurrt loftið og vindurinn ruglar mann,“ segir …
„Það er svo þurrt loftið og vindurinn ruglar mann,“ segir Hrefna Björg Gylfadóttir sem er í starfsnámi í Melbourne þar sem hitinn fór upp í 46 gráður í dag í mikilli hitabylgju sem gengur yfir suðurhluta Ástralíu þessa dagana. Ljósmynd/Harkiran Singh Narulla

„Ég hef aldrei upplifað svona hita áður,“ segir Hrefna Björg Gylfadóttir, sem er búsett í Melbourne, en mikil hitabylgja hefur geisað síðustu daga í mið- og suðurhluta Ástralíu.

Dæmi eru um að hitinn hafi farið í 50 gráður í suðurhluta landsins síðasta sólarhring og hafa hitamet fallið í hrönnum. Hrefna segir að aðstæðurnar séu sérstakar, hún hafi til að mynda ekki farið til vinnu í dag, en hún er í starfsnámi sem er hluti af námi hennar í frumkvöðlafræði og verkefnastjórnun, eða kaospilot, í Árósum í Danmörku.

„Vindorkan bjargaði borginni í dag“

Hrefna hefur verið í um mánuð í Ástralíu en hún segir að dagurinn í dag hafi slegið öll met. „Hitinn fór hæst upp í 46 gráður í Melbourne í dag og mældist hann á flugvellinum en inni í borginni náði hann hæst 42,8 gráðum,“ segir Hrefna þegar blaðamaður nær tali af henni þar sem hún er að elda kvöldmatinn. Ekki búa allir íbúar borgarinnar svo vel en rafmagnstruflanir hafa einkennt daginn og hefur rafmagn farið öðru hverju af um tvö hundruð þúsund heimilum í Viktoríufylki, þar á meðal í Melbourne. „Fólk gat ekki kælt sig niður og það gerði þennan dag aðeins dramatískari en að hann hefði þurft að vera,“ segir Hrefna.

Það voru einkum kolakyntar rafveitur sem gáfu sig í hitanum og ollu þannig rafmagnsleysi. Hrefna segir að vegna þessa hafi áhugaverðar umræður hafist í landinu um endurnýtanlega orkugjafa þar sem Ástralar þurfa nú að horfast í augu við áhrif loftslagsbreytinga. „Fólk hefur bent á að það sé kolaiðjunni að kenna að rafmagnið hafi legið niðri en vindorkunni að þakka að fleiri heimili hafi ekki misst rafmagn. Vindorkan bjargaði borginni í dag.“   

Hitinn í Melbourne er nánast óbærilegur og nýtir fólk hvert …
Hitinn í Melbourne er nánast óbærilegur og nýtir fólk hvert tækifæri til að kæla sig niður, eins og til dæmis þessi „úðunargöng“. AFP

Vör við alls konar dýr

Hitinn hefur einnig haft áhrif á dýrin en hitabylgjan hefur til að mynda leitt til dauða rúm­lega 90 villtra hesta í óbyggðum í Mið-Ástr­al­íu. Þá var kona bitin af kyrkislöngu sem hafði komið sér fyrir í klósetti á heimilinu, enda dauðþyrst.

Hrefna segist því vera óvenju athugul þessa dagana en hún hefur tekið eftir því að ýmsar verur sækist í vatn og hafa fjölbreyttir gestir, sem eru mis velkomnir, gert vart við sig á heimili hennar, en engar kyrkislöngur þó. „Ég hef ekki séð kakkalakka í Melbourne fyrr en í dag, þeir voru inni á baði, og maður sér fleiri maura og skordýr sem er að sækjast í vatn.“

Íbúar Melbourne virðast taka hitabylgjunni almennt með jafnaðargeði en Hrefna segir að lítið þurfi hins vegar til svo að venjulegar aðstæður verði allt í einu mjög dramatískar. „Í gær var ég troðfullri lest með engri loftkælingu og þetta hefur alvarleg líkamleg áhrif, maður byrjar að titra og svitna og fyllist kvíða því að maður þarf að komast í vatn og kulda.“

Þegar Hrefna flutti til Melbourne í byrjun árs var hitinn í kringum 27-30 gráður og er því munurinn greinilegur þessa dagana. „Það er svo þurrt loftið og vindurinn ruglar mann. Borgin breytist líka, það er minna fólk á götunum af því að það þolir ekki að vera lengi úti í þessum hita.“

Hrefna Björg hefur dvalið í Ástralíu í um mánuð en …
Hrefna Björg hefur dvalið í Ástralíu í um mánuð en hefur aldrei upplifan annan eins hita eins og í dag. Ljósmynd/Harkiran Singh Narull

Sólgleraugu, hattur og vatn orðinn staðalbúnaður 

Hrefna hélt sig heima í dag, líkt og margir íbúar Melbourne, þar sem hitinn varð fljótt óbærilegur. „Ég vissi að ég höndla ekki svona mikinn hita. Ég er örugglega extra viðkvæm sem Íslendingur. Mér finnst ég vera búin að vera með sólsting í tvær vikur, maður finnur að maður verður þreyttur, sveittur og leitar í kulda. Þetta hefur mjög mikil áhrif á mann,“ segir hún og bætir við að staðalbúnaður síðustu vikna hafi verið óvenjulegur fyrir hana: Sólgleraugu, hattur og vatn.

Hrefna hlakkar hins vegar til að komast aftur í vinnuna. Hún er í starfsnámi hjá samtökum sem heita The Climate Reality Project þar sem hún vinnur að því að undirbúa námskeið fyrir fólk sem vill verða leiðtogar í loftslagsmálum. Hún segir að hitabylgja eins og sú sem gengur nú yfir sýni svart á hvítu að grípa þurfi til aðgerða, og það strax.

„Það er áhugavert að vera að vinna við það árið 2019 að auka vitund um loftslagsmál þegar við erum að horfa á áhrifin. Það er smá eins og við séum komin út úr því að vekja athygli á málefninu, núna þurfum við að horfast í augu við það sem er að gerast.“  

Ekki hægt að kæla sig niður í sjónum

Þjóðhátíðardagur Ástralíu er haldinn hátíðlegur um helgina en hátíðahöld verða væntanlega með breyttu sniði sökum hitans. „Það er mikill kúltúr fyrir því að fara í útilegu þessa helgi en stjórnvöld eru búin að vara við því að fólk fari í útilegu, meðal annars vegna aukinnar hættu á skógareldum,“ segir Hrefna, sem var einmitt búin að skipuleggja útilegu með vinum sínum.

„Við erum hætt við það og ætlum að fara á ströndina og reyna að kæla okkur niður í staðinn, sem er eiginlega ógeðslega fyndið því það er ekki hægt að kæla sig niður á ströndinni því sjórinn er sjálfur svo heitur, en það er eiginlega það eina sem maður getur gert.“

Yfirvöld ráðleggja Áströlum frá því að fara í útilegur um …
Yfirvöld ráðleggja Áströlum frá því að fara í útilegur um helgina vegna aukinna hættu á skógareldum vegna hitabylgju sem gengur yfir suðurhluta landsins. Myndin er tekin í Deepwater-þjóðgarðinum í lok síðasta árs. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert