Trump afléttir lokunum ríkisstofnanna tímabundið

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði þá starfsmenn sem nú hafa verið …
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði þá starfsmenn sem nú hafa verið launalausir í fimm vikur, nú fá greidd laun aftur í tímann. AFP

Lokunum bandarískra ríkisstofnana verður aflétt tímabundið. Frá þessu greindi Donald Trump Bandaríkjaforseti yfir í dag, en þriggja vikna hlé verður gert á lokununum á meðan viðræður þings og forseta um fjárlagafrumvarpið halda áfram.

Frá þessu er greint á vef BBC, en 35 dagar eru nú frá því að hluta ríkisstofnanna var lokað eftir að ekki náðist samkomulag um fjárlagafrumvarp. Er það lengsti tími í sögu Bandaríkjanna sem lokun ríkisstofnanna hefur varað.

Sagði Trump við fréttamenn í Hvíta húsinu í dag að hann hefði nú fallist á að fjármagna alríkisstofnanir til 15. febrúar nk.

Heimildir BBC innan þingsins segja samkomulagið um fjárlögin ekki innihalda fé fyrir landamæramúrinn sem Trump vill reisa á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Trump hefur til þessa neitað að undirrita fjárlagafrumvarpið, þar sem demókratar hafa ekki viljað gera ráð fyrir 5,7 millarða dollara fjármögnun múrsins þar í.

800.000 alríkisstarfsmenn hafa nú verið launalausir í 5 vikur og sagði Trump starfsmennina, sem hann kallaði „ótrúlega föðurlandsvini“ munu fá fulla greiðslu launa aftur í tímann.

Forsetinn hótaði þó einnig að ríkisstofnunum yrði lokað á ný í næsta mánuði samþykki þingið ekki fjárveitingabeiðni hans fyrir múrinn.

„Ef við fáum ekki sanngjarnan samning frá þinginu þá mun ríkisstjórnin annað hvort loka stofnunum aftur þann 15. febrúar eða ég mun nota það vald sem ég hef samkvæmt lögum og stjórnarskrá til að lýsa yfir neyðarástandi,“ sagði Trump.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is