Hvernig Pelosi trompaði Trump

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og Donald Trump Bandaríkjaforseti. Bæði …
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og Donald Trump Bandaríkjaforseti. Bæði neituðu að gefa eftir í deilunni um fjárlögin. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá því í gær að hann hefði samþykkt fjárlög bandaríska ríkisins til næstu þriggja vikna og að þær alríkisstofnanir sem þá höfðu verið lokaðar í 35 daga myndu opna á ný og 800.000 starfsmenn, sem hafa verið launalausir síðan, fengju nú greidd laun.

Stjórnmálaskýrendur hafa í kjölfarið verið með vangaveltur um hvernig Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, tókst það sem öðrum hefur mistekist til þessa — að hafa betur í störukeppni við forsetann.

Trump hafði neitað að undirrita fjárlagafrumvarpið nema þar yrði gert ráð fyrir 5,7 milljarða dollara fjármögnun fyrir múrinn sem hann vill reisa á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, en á það hafa demókratar í þinginu ekki viljað fallast.

Í fjárlagafrumvarpinu sem forsetinn samþykkti, sem er vissulega aðeins til þriggja vikna, er hvergi minnst á greiðslur fyrir múrinn. Hvernig, spyr CNN, tókst nýja þingforsetanum Pelosi, að hafa betur í deilunni við Trump sem frá því hann tók við forsetaembættinu og í framboði sínu hefur ruðst í gegnum allar hindranir á stjórnmálasviðinu?

„Svarið,“ segir CNN, „er einfalt. Hún sagði nei og stóð við það.“

Auk þess hafi Pelosi trompað Trump varðandi stefnuræðu hans í þinginu. Pelosi sagði Trump að fresta ræðunni þar til deilan leystist. Hann sagði nei og skoraði á hana að neita honum um tækifærið. Pelosi gerði nákvæmlega það er hún meinaði forsetanum að flytja ræðuna af öryggisástæðum.

Það sem Pelosi virðist skilja betur en fyrri pólitískir andstæðingar Trumps er að þegar kemur að forsetanum séu það mistök að gefa eftir minnstu agnarögn. Ekki aðeins sé nauðsynlegt að standa fastur á sínu, heldur þurfi viðkomandi að sýna að hann sé tilbúinn að ganga lengra en öll hefðbundin pólitísk viðmið gera ráð fyrir, til að mynda með því að fresta stefnuræðu foretans. Aðeins þá geti sigurinn verið í höfn og það, segir CNN, tókst Pelosi að gera tvisvar á einni viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert