Frysta eigur námufyrirtækisins

Gríðaleg eyðilegging og manntjón varð þegar stíflan brast.
Gríðaleg eyðilegging og manntjón varð þegar stíflan brast. AFP

Brasilísk yfirvöld hafa fryst eigur námufyrirtækisins Vale, eða sem nemur þremur milljörðum dala. Það jafngildir um 360 milljörðum króna. Gripið er til þessara aðgerða eftir að stífla við eina námu fyrirtækisins brast með þeim afleiðingum að a.m.k. 37 létust og yfir 250 er saknað.

Ríkissaksóknarinn í Minas Gerais greindi frá þessu í dag. 

Stíflan brast á föstudag við Corrego do Feijao-námuvinnsluna í suðausturhluta landsins með þeim afleiðingum að gríðarlegt magn af aur og leðju fór yfir svæðið og hreif með sér hús og ökutæki og kaffærði vegi. 

Vale hefur enn fremur hlotið háar sektir, eða sem nemur 92,5 milljónum dala, sem samsvarar um 11 milljörðum kr. 

Verð á hlutabréfum í Vale féll um 8% á föstudag í kauphöllinni í New York eftir að stíflan brast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert