Hjólar kona í Trump?

Elizabeth Warren, Kamala Harris, Kirsten Gillibrand og Tulsi Gabbard.
Elizabeth Warren, Kamala Harris, Kirsten Gillibrand og Tulsi Gabbard. AFP

Enda þótt ríflega 21 mánuður sé í forsetakosningar í Bandaríkjunum er baráttan löngu hafin, leynt og ljóst, og ófáir reiðubúnir að skora sitjandi forseta, Donald Trump, á hólm. Á báðum vængjum. 

Kjörtímabil Trumps var hálfnað um liðna helgi. Fyrir liggur að hann sækist eftir endurkjöri í næstu kosningum sem fram fara í nóvember á næsta ári en sem kunnugt er má forseti Bandaríkjanna sitja tvö kjörtímabil. Gustað hefur um forsetann og ýmsir framámenn innan hans eigin flokks, Repúblikanaflokksins, hafa verið gagnrýnir á framgöngu hans í embætti. Ekkert mótframboð hefur þó komið fram innan flokksins enn þá en einhverjir eru að hugsa málið. Má þar nefna fyrrverandi öldungadeildarþingmennina Bob Corker og Jeff Flake, Larry Hogan, ríkisstjóra Maryland, John Kasich, sem nýlega lét af embætti ríkisstjóra Ohio, og Bill Kristol, starfsmannastjóra í varaforsetatíð Dans Quayles.

Sjaldgæft er að sitjandi forsetar fái alvörumótframboð innan eigin flokks; það gerðist síðast fyrir forsetakosningarnar 1992, þegar George Bush eldri þurfti að hafa fyrir því að hrista Pat Buchanan af sér. Bush féll svo í kosningunum sjálfum fyrir demókratanum Bill Clinton.

Fjölmennt og fjölskrúðugt

Á hinum væng stjórnmálanna bíður múgur og margmenni spriklandi eftir því að fá að reyna sig við Trump og útlit fyrir fjölmennasta og fjölskrúðugasta forval í manna minnum á vettvangi Demókrataflokksins.

Konur hafa ekki í annan tíma verið meira áberandi en kona hefur aldrei gegnt embætti forseta Bandaríkjanna. Hillary Clinton bauð sig fram fyrst kvenna árið 2016 en laut nokkuð óvænt í lægra haldi fyrir Trump.

Tvær konur eru þegar klárar í slaginn; Kamala Harris, öldungadeildarþingmaður frá Kaliforníu, tilkynnti formlega í vikunni að hún sæktist eftir tilnefningu flokksins en fyrir á listanum var Tulsi Gabbard, fulltrúadeildarþingmaður frá Hawaii. 

Þrjár aðrar konur, öldungadeildarþingkonurnar Elizabeth Warren og Kirsten Gillibrand og rithöfundurinn og frumkvöðulinn Marianne Williamson, eru komnar með annan fótinn inn í hringinn en þær kanna nú með formlegum hætti hvort grundvöllur sé fyrir framboði þeirra.
Warren er reyndust og þekktust þessara kvenna en hún verður sjötug á árinu. Harris er 54 ára, Gabbard 37 ára, Gillibrand 52 ára og Williamson 66 ára.

Warren er þekkt jafnaðarmanneskja og hefur verið gagnrýnin á Wall Street og stórfyrirtæki gegnum tíðina. Gabbard er fyrrverandi hermaður og enda þótt hún hafi barist fyrir Bernie Sanders í síðustu kosningum eru uppi efasemdir um að hún standi í raun og veru fyrir félagsleg gildi. Þá þykir óheppilegt fyrir hana í þessu samhengi að Steve Bannon, fyrrverandi öryggisráðgjafi Trumps, hefur farið fögrum orðum um hana. Gillibrand er líklega þekktust fyrir baráttu sína gegn kynferðisbrotum í hernum og háskólum landsins löngu fyrir #metoo-byltinguna og Williamson er kunnust fyrir samfélagsrýni sína, meðal annars í metsölubókum sínum, og störf að mannúðarmálum.

Af konum sem sagst hafa verið að íhuga málið má nefna Amy Klobuchar öldungadeildarþingkonu og Stacey Abrams, lögfræðing og fyrrverandi þingkonu á ríkisþingi Georgíu. Abrams varð á seinasta ári fyrsta þeldökka konan til að bjóða sig fram til ríkisstjóra fyrir hönd stóru flokkanna. Hún tapaði naumlega.

Karlar af ýmsu tagi

Af körlum sem líta útnefninguna hýru auga skal fyrstan telja John Delaney, 55 ára, fyrrverandi fulltrúadeildarþingmann frá Maryland, en hann tilkynnti fyrstur um framboð sitt, í júlí 2017. Hvort það gefur honum forskot á aðra frambjóðendur skal ósagt látið. Delaney er sterkefnaður kaupsýslumaður og þykir líklegur til að höfða til hófsamra repúblikana og fólks utan flokka.

Aðrir sem þegar hafa ákveðið að fara fram eru Juliàn Castro, 44 ára, sem gegndi embætti húsnæðismálaráðherra í stjórn Baracks Obama, og Richard Ojeda, 48 ára, fyrrverandi þingmaður í Vestur-Virginíu og majór í Bandaríkjaher.

Castro er af mexíkósku bergi brotinn og er líklega skýrasti valkosturinn við Trump þegar kemur að innflytjendamálum. Þykir fljúgandi mælskur. Ojeda er á vinstri væng Demókrataflokksins og heldur því fram að flokkurinn hafi fjarlægst rætur sínar og þurfi að endurvinna traust hinna vinnandi stétta.

Þá er ónefndur frumkvöðullinn Andrew Yang, 43 ára, en hann hefur enga reynslu af stjórnmálum. Sem gafst raunar vel í seinustu kosningum. Yang er af taívönskum uppruna og hefur róttækar hugmyndir um að skattleggja fyrirtæki í þágu almennings.

Þá tilkynnti Pete Buttigieg, borgarstjóri South Bend í Indiana, í vikunni að hann sé að kanna grundvöll fyrir framboði. Hann er aðeins 37 ára.

Efst á lista yfir fólk sem ekki hefur útilokað framboð en þykir afar ólíklegt til að fara fram eru tveir fyrrverandi utanríkisráðherrar, John Kerry og Hillary Clinton. Þá situr Oprah Winfrey fast við sinn keip; hún gefur ekki kost á sér.

Gamlir vendir ...

Af öflugum demókrötum sem ekki hafa útilokað framboð má nefna gömlu kempurnar Bernie Sanders, 77 ára, öldungadeildarþingmann frá Vermont, Joe Biden, 76 ára, fyrrverandi varaforseta, og Michael Bloomberg, 76 ára, fyrrverandi borgarstjóra New York. Af yngri mönnum hefur mikið verið rætt um Beto O’Rourke, 46 ára, fyrrverandi fulltrúadeildarþingmann frá Texas, og Cory Booker, 49 ára, öldungadeildarþingmann frá New Jersey. 

Juliàn Castro.
Juliàn Castro. AFP
Richard Ojeda.
Richard Ojeda. AFP
Bernie Sanders.
Bernie Sanders. AFP
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert