Bandaríkin setja refsitolla á Venesúela

Juan Guaido og Nicolas Maduro, sem báðir líta á sig …
Juan Guaido og Nicolas Maduro, sem báðir líta á sig sem forseta Venesúela, keppast um viðurkenningu hersins. AFP

Bandarísk stjórnvöld ætla að setja refsitolla á venesúelska olíufyrirtækið PDVSA, sem rekið er af ríkinu. Frá þessu greindi John Bolton, þjóðarör­ygg­is­ráðgjafi Banda­ríkj­anna, í kvöld. Bolton segir að það komi ekki greina að Nicolas Maduro, forseti landsins, geti haldið áfram að græða á auðlindum sem eru í eigu þjóðarinnar. 

Þjóðaröryggisráðgjafar Hvíta hússins hvetja herinn í Venesúela á sama tíma til að samþykkja „friðsamleg“ valdaskipti í landinu, það er að Juan Guaido sem lýsti sig réttmætan forseta landsins á miðviku­dag taki við af Maduro. 

Bolton fer fram á að herinn og öryggissveitir samþykki valdaskiptin sem séu „friðsamleg, lýðræðisleg og í samræmi við stjórnarskrá landsins“.

Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, segir að eina leið Maduro til að aflétta refsitollunum sé að afsala sér völdum og samþykkja Guaido sem réttmætan forseta Venesúela. 

John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna.
John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna. AFP

Aðspurður hvort Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi íhugað möguleg afskipti bandaríska hersins af stjórnmálaátökunum í Venesúela sagði Bolton að skýrt hefði komið fram í máli forsetans að ekkert væri útilokað í þeim efnum.

Guaido, þingforseti og leiðtogi stjórn­ar­and­stöðunn­ar í Venesúela, lýsti því yfir á samfélagsmiðlum í kvöld að hann væri að „ná yfirráðum yfir eignum ríkisins erlendis til að koma í veg fyrir að valdaræninginn [þ.e. Maduro] og menn á hans vegum næðu að tæma fjárhirslur ríkisins“.

Guaido hefur einnig hvatt til frekari mót­mæla næsta miðviku­dag og næsta sunnu­dag. Ann­ars veg­ar til þess „að krefjast þess að her­inn taki sér stöðu með fólk­inu“ og hins veg­ar til þess að lýsa yfir stuðningi við kröf­ur frá ýms­um ríkj­um í Evr­ópu um að nýj­ar þing­kosn­ing­ar fari fram inn­an viku.

Juan Guaido (t.v.), leiðtogi stjórnarandstöðunnar, lýsti sig starfandi forseta á …
Juan Guaido (t.v.), leiðtogi stjórnarandstöðunnar, lýsti sig starfandi forseta á miðvikudag. Nicolas Maduro (t.h.) hefur gegnt forsetaembættinu frá 2013. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert