Hvetur til frekari mótmæla

Juan Guaido, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela, hefur lýst sig starfandi …
Juan Guaido, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela, hefur lýst sig starfandi forseta landsins. AFP

Juan Guaido, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela, hefur hvatt til mótmæla næsta miðvikudag og næsta sunnudag. Annars vegar til þess „að krefjast þess að herinn taki sér stöðu með fólkinu“ og hins vegar til þess að lýsa yfir stuðningi við kröfur frá ýmsum ríkjum í Evrópu um að nýjar þingkosningar fari fram innan viku.

Fram kemur í frétt AFP að Ástralía hafi bæst í hóp þeirra ríkja sem viðurkennt hafa Guaido sem starfandi forseta landsins þar til kosningar fara fram í stað Nicolas Maduro. Önnur ríki sem það hafa gert eru Bandaríkin og Kanada. En fleiri ríki hafa lýst því yfir að boði Maduro ekki til kosninga á næstunni muni þau gera slíkt hið sama.

Meðal þeirra ríkja eru Bretland, Þýskaland, Frakkland, Ítalía, Spánn og Holland. Evrópusambandið hefur ekki tekið eins sterkt til orða í yfirlýsingum sínum segir í fréttinni og aðeins sagt að verði ekki boðað til þingkosninga á næstu dögum verði gripið til „frekari aðgerða“. Þar á meðal varðandi viðurkenningu á forystu landsins.

Bandaríkin hafa enn fremur varað við „alvarlegum viðbrögðum“ ef bandarískir stjórnarerindrekar, Guaido eða þing landsins yrði fyrir ofbeldi og hótunum. Maduro hefur til þess að ekkert gefið eftir. Sagði hann við bandarísku sjónvarpsstöðina CNN að enginn gæti sett stjórnvöldum í Venesúela afarkosti.

Guaido hefur lagt áherslu á það að undanförnu að grafa undan stuðningi hersins við Maduro, en herinn hefur gegnt lykilhlutverki í að tryggja völd forsetans undanfarin ár. Meðal annars hefur þingið heitið hermönnum friðhelgi vegna mögulegra ákæra.

Tæplega 30 manns hafa látið lífið í Venesúela og yfir 350 verið handteknir í átökum mótmælenda við öryggissveitir undanfarna viku. 

Frá mótmælum í Venesúela gegn stjórnvöldum.
Frá mótmælum í Venesúela gegn stjórnvöldum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert