Milljarðamæringur í framboð gegn Trump?

Howard Schultz, fyrrverandi framkvæmdastjóri Starbucks.
Howard Schultz, fyrrverandi framkvæmdastjóri Starbucks. AFP

Milljarðamæringurinn Howard Schultz íhugar bjóða sig fram gegn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í forsetakosningunum sem fram fara í landinu á næsta ári sem sjálfstæður frambjóðandi, en Schultz hefur til þessa stutt Demókrataflokkinn.

Fram kemur í frétt AFP að Schultz, sem er 65 ára að aldri og fyrrverandi framkvæmdastjóri kaffihúsakeðjunnar Starbucks, hafi greint frá því í viðtali við fréttaskýringaþáttinn 60 Minutes á bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS í gærkvöldi að hann væri alvarlega að velta fyrir sér að gefa kost á sér í kosningunum sem sjálfstæður frambjóðandi, óháður stóru stjórnmálaflokkunum tveimur, Demókrataflokknum og Repúblikanaflokknum.

„Við lifum á gríðarlega viðkvæmum tímum,“ sagði Schultz meðal annars. Trump væri ekki aðeins „óhæfur sem forseti“ heldur væru demókratar og repúblikanar ekki að sinna hagsmunum bandarísku þjóðarinnar. Þess í stað væru þeir uppteknir af því að reyna að koma höggi hvorir á aðra. Miklar ríkisskuldir Bandaríkjanna væru báðum flokkum að kenna og til marks um vanhæfni þeirra til þess að axla stjórnskipulega ábyrgð.

Telur ekki að hann muni tryggja Trump sigur

Schultz vísaði á bug áhyggjum úr röðum demókrata af því að mögulegt framboðs hans yrði til þess að tvístra atkvæðum andstæðinga Trumps og tryggja honum þannig annað kjörtímabil. „Ég vil sjá bandarísku þjóðina sem sigurvegara, ég vil sjá Bandaríkin sigra.“ Sjálfstæð framboð í Bandaríkjunum hafa að minnsta kosti í seinni tíð ekki fengið mikinn meðbyr og frekar orðið til þess að taka atkvæði frá öðrum stóru flokkanna.

Rifjað er upp í fréttinni að milljarðamæringurinn Ross Perot hafi fengið nægjanlega mörg atkvæði árið 1992 frá repúblikönum til þess að tryggja Bill Clinton, frambjóðanda demókrata, sigur. Að sama skapi hafi neytendafrömuðurinn Ralph Nader verið sakaður um að hafa tryggt repúblikananum George W. Bush forsetastólinn árið 2000 með framboði sínu sem hafi tekið mörg atkvæði frá demókrötum. Nader hefur alfarið hafnað þeim ásökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert