Sýknuúrskurði kviðdóms hafnað

Jensen gengur í sal 250 í Héraðsdómi Óslóar 18. september …
Jensen gengur í sal 250 í Héraðsdómi Óslóar 18. september 2017 til að hlýða á dómsorð. Þann dag hlaut hann 21 árs dóm. Kviðdómur komst að annarri niðurstöðu í dag en var hundsaður í Lögmannsrétti Borgarþings. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Tíu manna kviðdómur í máli fyrrverandi yfirlögregluþjónsins  í Ósló, Eirik Jensens, kvað nú í hádeginu upp þann úrskurð að Jensen skyldi vera sýkn af hlutdeild í innflutningi á 14 tonnum af hassi sem hann hafði hlotið 21 árs dóm fyrir í Héraðsdómi Óslóar haustið 2017. Kviðdómur vildi hins vegar sakfella fyrir stórfellda spillingu þar sem refsiramminn er tíu ár.

Kristel Heyerdahl dómsformaður tók sér tveggja stunda frest ásamt meðdómurum sínum til að taka afstöðu til úrskurðar kviðdóms og var niðurstaðan lögð fram núna klukkan 14, 13 að íslenskum tíma: Niðurstöðu kviðdóms var þar vikið til hliðar hvað fíkniefnahlutann snertir. „Dómurinn telur það hafið yfir vafa að Jensen er sekur um fíkniefnabrot og víkur niðurstöðu kviðdóms til hliðar. Málið verður rekið á nýjan leik frá grunni.“

Í 659 áfrýj­un­ar­mál­um frá 2013 til þessa dags hef­ur dóm­ari hundsað úr­sk­urð kviðdóms 37 sinn­um, eða í 5,6 pró­sent­um til­vika, 38 sinnum að meðtöldum úrskurði dagsins í dag. Átján sinn­um vék dóm­ari til hliðar sýknu­úrsk­urði kviðdóms, nú 19 sinnum, og 19 sinn­um sektar­úrsk­urði.

Fjallað verður ítarlegar um mál Jensens hér á mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert