Fimm handteknir vegna námaslyssins

Fimm hafa nú verið handteknir í tengslum við rannsókn á stíflu námafyrirtækisins Vale sem brast í Minas Gerais-fylki í Brasilíu á föstudag. Staðfest hefur verið að 65 hafi fundist látnir, er þykk leðjan flæddi úr stíflunni sem geymdi affall frá járgrýtisnámunni. Óttast er þó að tala látinna eigi eftir að hækka verulega þar sem yfir 300 manna var saknað.

Reuters-fréttaveitan segir þrjá hinna handteknu vera starfsmenn Vale, en að hinir tveir séu verkfræðingar sem störfuðu fyrir námafyrirtækið.  

Forsvarsmenn Vale sögðu í yfirlýsingu á Twitter að fyrirtækið sýndi yfirvöldum fullan samstarfsvilja við rannsóknina. Reuters segir málið þó hafa vakið spurningar hjá mörgum um það hversu vel fyrirtækið sinni öryggismálum. Rúm þrjú ár eru nú liðin frá því önnur stífla Vale í Minas Gerais brast með þeim afleiðingum að 19 manns létust.

Tveir af yfirmönnum Corrego do Feijao-námunnar, þar sem stíflan brast, eru meðal hinna handteknu. Ekki hefur verið greint frá því hver þriðji starfsmaðurinn er. Verkfræðingarnir tveir sem voru handteknir eru þá að sögn ríkissaksóknara þeir sem gáfu út öryggisvottun stíflunnar.

Rannsakendur hafa þá farið fram á að fá að gera húsleit á sjö stöðum, en að sögn Reuters er skjalafals, umhverfisglæpir og grunur um morð meðal þess sem þeir eru að skoða.

Boð námafyrirtækisins um bætur fyrir slysið, sem er það mannskæðasta sem orðið hefur í Brasilíu áratugum saman, hefur mætt litlum viðbrögðum. Fyrirtækið hefur m.a. heitið því að leggja mikið fjármagn í að gera stíflur sínar öruggari.

„Vale er að eyðileggja Minas Gerais,” hefur Reuters eftir Robinson Passos, sem missti bæði ættingja og vini í flóðinu. „Það er reiði, sorg og allt,“ sagði hann og átti erfitt með að halda aftur af tárunum er hann virti eyðilegginguna fyrir sér.

Björgunarmenn bera á milli sín lík eins þeirra sem létust …
Björgunarmenn bera á milli sín lík eins þeirra sem létust er stíflan brast, en hundraða er enn saknað. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert