Fólki ráðlagt að tala lítið í kuldanum

Veðurfræðingar hafa varað fólk í Iowa-ríki í Bandaríkjunum við því að „draga andann djúpt“ en spár gera ráð fyrir miklum frosthörkum í Miðvesturríkjunum í vikunni. Gert er ráð fyrir því að frost fari niður í -50 °C í Chicago.

Fólki er enn fremur ráðlagt að tala eins lítið og það getur ef það fer út fyrir hússins dyr. Lýst hefur verið yfir neyðarástandi frá Wisconsin til Alabama.

Veðurfræðingur bandarísku veðurstofunnar sagði að kuldinn væri óvenjulega mikill. „Ég myndi segja að þetta gerist einu sinni á mannsaldri,“ sagði veðurfræðingurinn, John Gagan.

Varað hefur verið við því að fólk geti fengið kal af einungis tíu mínútna útiveru.

Kaldast verður á morgun en spár gera ráð fyrir því að þá verði kaldara í Chicago en á Suðurskautslandinu. Með vindkælingu fer frostið niður í -50 °C.

Fjölda skóla og opinberra stofnana hefur verið lokað í Miðvesturríkjunum og neyðarskýli hafa verið opnuð. 

Lögreglan í Chicago greinir frá því að óvenjumörgum dýrum yfirhöfnum hafi verið rænt í kuldanum síðustu daga. Í fréttamiðlum vestanhafs segir að byssumenn hafi rænt fjölda yfirhafna sem kosti allt að því sem jafngildir 130.000 íslenskum krónum.

Það er kuldalegt um að litast á háskólasvæðinu í Chicago.
Það er kuldalegt um að litast á háskólasvæðinu í Chicago. Ljósmynd/Eyjólfur Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert