Hótaði farþegum í flugi til Íslands

Flugvélin var á leið frá Manchester til Keflavíkur síðdegis í …
Flugvélin var á leið frá Manchester til Keflavíkur síðdegis í gær. AFP

Flugvél EasyJet, sem var á leið frá Manchester til Keflavíkurflugvallar síðdegis í gær, þurfti að millilenda í Edinborg í Skotlandi og losa sig við blindfullan flugdólg, sem reykti rafsígarettu um borð og hótaði áhöfn og farþegum.

Breski fjölmiðillinn Sun greinir frá þessu og hefur eftir einum farþeganna að maðurinn hafi gengið fram og aftur um farþegarýmið og sogið rafsígarettu sína, á meðan hann hreytti ónotum í samferðamenn sína.

„Ég sagði honum að hætta að láta eins og kjáni þar sem hann virtist fullur, og þá hótaði hann mér,“ hefur Sun eftir farþeganum, sem segir jafnframt að áhöfnin hafi verið hrædd við manninn og tekið ákvörðun um að hann yrði ekki með í för alla leið til Íslands.

Lögreglumenn tóku á móti manninum á flugvellinum í Edinborg og færðu hann í járn, en einn farþeganna greindi frá því að maðurinn hefði brotið iPhone-síma sinn í tvennt er flugvélin var lent og gert tilraun til þess að kveikja í rafhlöðu símans, áður en hann var yfirbugaður.

EasyJet segir í yfirlýsingu að flugfélagið taki svona atvik alvarlega, þrátt fyrir að þau séu fátíð.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert